136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

embætti sérstaks saksóknara.

393. mál
[17:02]
Horfa

dómsmálaráðherra (Ragna Árnadóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ljóst er að þessi umræða um embætti sérstaks saksóknara og umræða um aukningu á starfsmannaliði hans kallar á umræður um ýmsa þætti rannsóknarinnar. Vel getur verið að við þurfum ekki einungis að huga að aðkeyptum sérfræðingum og því að veita fé til þeirra, heldur þurfi líka að huga að því að veita fjármagn í aukin tengsl eða viðvarandi tengsl við Europol, en fjárheimildir hafa ekki gert ráð fyrir að hafa þar fastan starfsmann út árið. Ég held að þessi umræða um sérstakan saksóknara sé einmitt tækifæri til að skoða öll svona sambönd til hlítar og tel að einmitt megi huga að því að búa til tengsl og njóta sérfræðiaðstoðar, bæði með því að fá hingað erlenda sérfræðinga en líka að leita út fyrir landsteinana til góðra manna og kvenna sem þar eru.