136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

embætti sérstaks saksóknara.

393. mál
[17:05]
Horfa

Kjartan Ólafsson (S):

Herra forseti. Ég á ekki sæti í nefndinni sem fjallar um það mál sem hér er verið að ræða en hef hlýtt á umræðuna sem hefur átt sér stað og verið mjög gagnleg.

Ástæða þess að ég kveð mér hljóðs um þetta mál er sú að ég hef átt sæti fyrir hönd Alþingis Íslendinga í Norðurlandaráði og tekið þátt í því starfi eins og vera ber og verið í nefnd sem heitir meðborgaranefnd, en sú nefnd hefur einmitt fjallað um málaflokka af þeim toga sem hér um ræðir, rannsóknir á hvers konar glæpastarfsemi, mansali, eiturlyfjum, peningaþvætti o.s.frv. Ég hef átt þess kost að heimsækja bæði Eurojust og Europol í Haag í Hollandi og reyndar líka Alþjóðadómstólinn sem þar er. Þar eru fulltrúar frá Norðurlöndunum og Norðurlöndin hafa ákveðið samstarf og samstarfsvettvang innan þessara stofnana og við lögregluna í viðkomandi löndum, þannig að ég held að það hljóti að vera alveg einboðið að við nýtum okkur þá þekkingu og mig grunar að það hafi verið gert í einhverjum mæli í öðrum og annars konar málum en við fjöllum um hér.

Þá get ég nefnt að þessi meðborgaranefnd hefur heimsótt Varsjá í Pólland, þar sem höfuðstöðvar Schengen-mála eru og það er gríðarlega stór og stækkandi stofnun með gríðarlega öflugt lið og þetta fléttast allt saman við lögreglu í heimalöndunum. Þar eiga Norðurlöndin einmitt fulltrúa sem tengir starfið sem þar er unnið og, eins og ég sagði áðan, stækkar ört hópurinn sem vinnur að þeim málum í Varsjá. Gríðarlegir fólksflutningar eru frá Asíu, Írak, Íran, Úkraínu og löndunum sem snúa að Póllandi þannig að mikil ásókn er í að komast inn í þennan vestræna heim okkar. Líka er verið að smygla fólki og það er stóriðnaður ekki síður en eiturlyfja- og klámiðnaðurinn, það er iðnaður að flytja fólk og smygla því inn í þau lönd sem standa að EES og Evrópubandalaginu.

Þetta vildi ég, herra forseti, að kæmi fram og hvet til þess að þær leiðir sem við höfum í gegnum Norðurlandaráðssamstarfið verði nýttar í þessu tilfelli.