136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

breyting á ýmsum lögum vegna færslu eftirlits með öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga.

420. mál
[17:09]
Horfa

Frsm. umhvn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna færslu eftirlits með öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, frá Neytendastofu til Brunamálastofnunar. Þetta geri ég, virðulegi forseti, fyrir hönd umhverfisnefndar í fjarveru formanns hennar og framsögumanns.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið til sín fjölmarga gesti og fjölmargar umsagnir um þetta mál. Markmiðið með þessu frumvarpi er að færa rafmagnsöryggissvið, sem hefur verið hjá Neytendastofu, yfir til Brunamálastofnunar. Til að tryggja þetta eru lagðar til breytingar á lögum um brunavarnir, nr. 75/ 2000, sem heyra undir umhverfisráðuneytið, og tvennum lögum sem heyra undir viðskiptaráðuneytið, þ.e. lögum um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, nr. 146/1996, og lögum um Neytendastofu og talsmann neytenda, nr. 62/2005.

Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að almennt virðist vera sátt um yfirfærsluna hjá hlutaðeigandi ráðuneytum sem og velflestum þeim aðilum sem nefndin ræddi við. Það var þó settur fyrirvari af hálfu Neytendastofu við yfirfærsluna sem sneri aðallega að fjárhagslegum atriðum. Það var þó að öðru leyti almenn samstaða um að þetta skyldi gert enda tengist rafmagnsöryggi bygginga óhjákvæmilega brunavörnum vegna þess að eldur kviknar jú æði oft, ef ekki í velflestum tilfellum, út frá rafmagni.

Þess vegna telur nefndin eðlilegt að málaflokkurinn eigi betur heima hjá Brunamálastofnun og leggur því til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Hv. þm. Karl V. Matthíasson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir þetta rita hv. þingmenn Helgi Hjörvar, Atli Gíslason, Eygló Harðardóttir, Katrín Júlíusdóttir, Kjartan Ólafsson, Árni M. Mathiesen, Jón Gunnarsson og Kristinn H. Gunnarsson.