136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

breyting á ýmsum lögum vegna færslu eftirlits með öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga.

420. mál
[17:11]
Horfa

Kjartan Ólafsson (S):

Herra forseti. Ég vil fara nokkrum orðum um frumvarpið sem hér um ræðir, um breytingar á ýmsum lögum vegna færslu eftirlits með öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, frá Neytendastofu til Brunamálastofnunar.

Ég hef átt sæti í umhverfisnefnd, bæði á þessum og síðasta vetri, þannig að ég þekki málið nokkuð vel og það á sér miklu lengri sögu en kemur fram í greinargerð um frumvarpið og ég vil aðeins rekja það. Árið 2002 var byrjað að undirbúa málið en þó ekki í þeim búningi sem við sjáum nú heldur var verið að undirbúa ný skipulagslög og lög um mannvirki, mannvirkjalög sem svo voru kölluð. Þetta voru lagabálkar sem við höfðum til umfjöllunar á Alþingi síðasta vetur en náðu ekki fram að ganga. Þar var einmitt ætlað að þessi tiltekna breyting, sem við förum yfir hér, ætti sér stað með stofnun nýrrar stofnunar sem mundi heita mannvirkjastofnun og Brunamálastofnun yrði þá innan hennar.

Ekki var sátt um þessi skipulags- og mannvirkjalög á Alþingi, fyrst og fremst vegna III. kafla, ef ég man rétt, sem fjallaði innan skipulagslaga um landsskipulagsáætlanir sem sveitarfélögin voru afskaplega mikið á móti. Landsskipulagsáætlanirnar áttu að taka yfir skipulagsvald hjá sveitarfélögunum og vera æðra því skipulagsvaldi sem sveitarfélögin hafa haft og jafnframt átti landsskipulagsáætlunin að taka yfir skipulagsþátt hálendisins. Mikil ósamstaða var um þetta, sérstaklega meðal sveitarstjórnanna á landinu og þess vegna var þetta frumvarp ekki afgreitt frá Alþingi, hvorki í fyrravor né á haustþinginu í september, en það þing var nýlunda, eins og forseta er kunnugt um. Þetta fór ekki fram og því hefur þessi breyting ekki orðið eins og hún er lögð fyrir hér.

Síðan hefur áfram verið unnið að frumvörpum á þessum vetri en þau hafa ekki náð fram að ganga og ekki verið lögð fram að nýju af hæstv. umhverfisráðherrum, hvorki þeim sem var í fyrri ríkisstjórn né hæstv. núverandi umhverfisráðherra, Kolbrúnu Halldórsdóttur. Með mannvirkjafrumvarpinu var ætlað að mikil fjölgun starfsmanna yrði og mikið skráningarkerfi sett upp og talað um að það mundi kosta allt að 200 milljónir að koma þeirri stofnun upp í fullri stærð og fullum búningi með öllum þeim tölvugögnum og grunngögnum sem þyrftu að koma inn í það kerfi, þannig að það mál hefur ekki farið fram og ég sé ekki að miðað við aðstæður okkar sé nauðsynlegt að fara í þá miklu breytingu. Fyrir utan það að margir þingmenn Sjálfstæðisflokksins vildu að þetta yrði ein stofnun, þ.e. skipulags- og mannvirkjastofnun. Við teljum að það yrði skilvirkara og ódýrara að hafa þetta undir einni stofnun heldur en tveimur.

Herra forseti. Ég held að við þurfum að endurmeta þá löggjöf og það frumvarp sem hefur verið í smíðum allt frá 2002 með tilliti til þess að það hæfi þeim ferlum sem eru í gangi í dag. Augljóst er að allra næstu ár verður ekki byggt í nándar nærri þeim mæli á Íslandi eins og var síðustu fimm eða sjö árin, þannig að við þurfum að taka þetta niður og sníða okkur stakk eftir vexti.

Þess vegna er þetta litla, saklausa frumvarp mjög jákvætt og ég held að sjálfsagt og eðlilegt sé að það fari í gegnum Alþingi og verði samþykkt. Ég tel svo vera enda erum við sjálfstæðismenn með á nefndarálitinu og styðjum málið, en ég vildi alla vega koma því að hér að þetta er tengt miklu stærra máli en einungis þessari litlu breytingu.

Það er kannski rétt að nefna það að hv. umhverfisnefnd átti þess kost að fara í kynnis- og fræðsluferð til Skotlands á haustdögum þar farið var yfir með þarlendum yfirvöldum hvernig málum væri háttað hvað varðar skipulags- og mannvirkjalög í Skotlandi. Þá kom í í ljós að sá þáttur er varðaði landsskipulagsáætlanir er þar í landi miklu meira unninn með íbúum, fyrirtækjum og sveitarfélögum og í raun unnið frá grasrótinni og upp úr og reynt að aðlaga skipulagið að aðstæðum þeirra fyrirtækja og þeirrar starfsemi sem menn óska eftir að hafa á viðkomandi svæðum. Hér var meira verið að byggja regnhlíf yfir, þar sem ríkisvaldið átti að hafa hönd yfir öllu og hafa æðsta vald um landsskipulagsáætlanir og notkun í landinu.

Eins og ég sagði áðan varðaði það líka miðhálendið, en þar hefur verið starfandi nefnd og sveitarfélögin hafa komið að starfi skipulagsmála miðhálendisins og þar hafa menn unnið þarft verk, m.a. farið yfir mörk, eins og t.d. við Þjórsá, og ég hygg að heimaaðilar á hverju svæði fyrir sig séu að ná nokkuð góðri lendingu með skipulagsþáttinn. Má þá t.d. nefna Vatnajökulsþjóðgarð, mál er varðar náttúruverndaráætlun sem liggur inni í umhverfisnefnd núna. Þar koma vissulega inn skipulagsmál og þættir er varða skipulagslögin og við þurfum að ná að búa til góða sátt um nýtingu og verndun þess lands sem þar um ræðir. Þar eru jafnframt Þjórsárver sem eru og hafa verið ákveðin átakamál milli þeirra sem vilja friða og þeirra sem vilja nýta það land og þau gæði sem eru umhverfis Þjórsárverin, en allir eru í rauninni á einu máli um að vernda Þjórsárver, eins og þau þurfa að fá að vera og geta nýst sem merkileg náttúruvist.

Ég vil sem sé, herra forseti, mæla með því að við samþykkjum þetta frumvarp sem lög og vildi einungis gera grein fyrir því að þetta er hluti af miklu stærra máli sem við höfum rætt og unnið með allt frá árinu 2002. Þetta er bara örlítill partur af því máli og því held ég að skynsamlegt sé að við klárum þetta og samþykkjum en við verðum að skoða virkilega vel aðra þætti er tengjast þessum stóra lagabálki, sem eru skipulags- og mannvirkjalögin. Mjög mikilvægt er að það sé ekki slitið í sundur.