136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

breyting á ýmsum lögum vegna færslu eftirlits með öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga.

420. mál
[17:22]
Horfa

Frsm. umhvn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta svolítið sérkennileg bón hjá hv. formanni þingflokks sjálfstæðismanna. Mikið hefur verið talað um ráðherraræði í þessu landi og að þingið hafi of lítið vægi. Núna er þetta mál í meðförum þingsins. Það er búið að fá ítarlega umfjöllun í nefnd og kemur út í fullkominni sátt allra nefndarmanna, líka þeirra hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem í nefndinni sitja. Málið hefur fengið gríðarlega góða umfjöllun og ég lít svo á að þegar mál er komið í þingnefnd, hefur fengið þar umfjöllun og er síðan komið aftur út til þingsins sé það á forsjá þingsins og ekki lengur í höndum ráðherra. Það að kalla eftir ráðherra finnst mér vera öfugmæli og gera lítið úr þinginu, virðulegi forseti, svo ég segi alveg eins og er. Það er í okkar meðförum, í okkar höndum, og allir þingmenn sem sitja í hv. umhverfisnefnd flytja saman breytingartillögu við frumvarpið.