136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

náttúruvernd.

362. mál
[17:34]
Horfa

Kjartan Ólafsson (S):

Herra forseti. Bændur landsins eru landverðir landsins. Hér fjöllum við um frumvarp til laga um breytingar á lögum um náttúruvernd, nr. 44/1999, með síðari breytingum. Frumvarpið kemur inn á landvörslu, námskeið, próftöku og greiðslu fyrir slík námskeið.

Það er margt sem er í kringum svona frumvarp, margt sem varðar landvörsluna líkt og frumvarpið sem við ræddum áðan, um rafföngin, sem tengdist skipulags- og mannvirkjalögunum sem við höfum verið að vinna með. Hæstv. umhverfisráðherra hefur átt sæti í umhverfisnefnd og þekkir þess vegna mjög vel þá vinnu sem búið er að leggja í það mál allt frá árinu 2002, að ég hygg. Það frumvarp sem við ræðum frekar á eftir fjallar um skipulags- og mannvirkjalögin. Þetta mál er afleggjandi þar af vegna þess að þarna er vitnað í athugasemdum við lagafrumvarpið í stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs, stærsta þjóðgarðs í Evrópu sem við afgreiddum frá hinu háa Alþingi og var stofnaður árið 2008. Þar er að fjölga starfsfólki, eðli málsins samkvæmt. Þetta frumvarp er tilkomið vegna þess að starfsfólkinu fjölgar og það þarf að fá fagmenntað fólk til að taka upp þau störf sem heyra undir þjóðgarðinn.

Það er einn þáttur sem ég vil nefna sem kemur að sjálfsögðu ekki fram í frumvarpinu, hann varðar starfsstöð og staðsetningu starfsfólks Vatnajökulsþjóðgarðs. Nú birtist hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir sem var hæstv. umhverfisráðherra þegar ráðið var í forstöðumannsstöðu Vatnajökulsþjóðgarðs. En í þeirri lagasetningu var gert ráð fyrir að þessar fjórar undirstjórnir væru skipaðar heimamönnum, þ.e. að starfsstöðvar þær sem eru við þjóðgarðinn væru að mestu skipaðar heimamönnum og síðan væri mynduð ein stór stjórn þjóðgarðsins. Meiningin var að starfsstöð yfirstjórnar væri úti á landsbyggðinni á einhverjum af þeim stöðum þar sem Vatnajökulsþjóðgarður hefði starfsstöð. Í því tilliti var oftast nefnt að Höfn í Hornafirði eða það svæði mundi sjá um reksturinn.

Ég nefni þetta vegna þess að komið hefur svo fram í framkvæmdinni að starfsstöð og skrifstofa fyrir Vatnajökulsþjóðgarð er í Reykjavík en ekki á landsbyggðinni þannig að flestar þær ákvarðanir sem hafa verið teknar hafa ekki snúið að því að starfsfólkið væri á landsbyggðinni. Nú vildi ég gjarnan fá að heyra hjá hæstv. umhverfisráðherra hvort ekki sé öruggt að þær starfsstöðvar og stöðugildi sem tengjast þeirri greinargerð sem eru athugasemdir með frumvarpinu, verði þar sem störfin eru unnin, þ.e. við Vatnajökulsþjóðgarð og í honum, og hvort ekki liggi fyrir að sá aðili sem er yfir Vatnajökulsþjóðgarði muni flytja starfsstöð sína austur. Ég held að það sé mjög gagnlegt að við fáum að heyra um það vegna þess að í aðdraganda þeirrar lagasetningar átti ég sæti í umhverfisnefnd. Þá töluðu sumir um að starfsstöðin ætti að vera hér í Reykjavík, hér væri fólkið sem mundi heimsækja garðinn. En eins og ég sagði í upphafi máls míns, frú forseti, eru bændur landsins búnir að vera landvörslumenn þessa lands í þúsundir ára. Það eru þeir sem hafa ræktað landið, nýtt það og hirt um það og ég hygg að okkur hafi farnast vel þar með.

Hins vegar hafa vatnsföll, eldgos og eyðingaröfl verið erfið fyrir gróðurlendi landsins en við erum nú að snúa því til betri vegar og sjáum batnandi náttúru og gróðurfar og er því sérstaklega fyrir að þakka hvað okkur hefur tekist að beisla jökulárnar. Jökulárnar eru þau vatnsföll sem hafa eytt mestum gróðri á Íslandi undangengin ár og áratugi en með beislun vatnsfalla eins og t.d. Markarfljóts, Þverár, Rangánna í Rangárvallasýslu, höfum við uppskorið eitthvert besta landbúnaðar- og ræktunarland landsins. Eftir að lagður var vegur yfir Skeiðarársand, brúaðar ár og settir upp varnargarðar, hefur öflugur gróður vaxið gríðarlega á austurhluta Skeiðarársands og við eigum eftir að sjá skóg vaxa fyrir sunnan þjóðveginn einmitt vegna þess að búið er að binda vatnsföllin. Þetta er það sama og við höfum gert á hálendinu með virkjunum. Þar beislum við vatnsföllin og græðum upp og gróðurinn fær frið fyrir vatnsföllunum. Þar verður mikil gróðurvin á næstu árum og þar er verkefni sem tekin hefur verið ákvörðun um hér, frú forseti, á hinu háa Alþingi. Það heitir Hekluskógar og skilar mjög góðu hvað landgræðslu varðar.

Allt tengist þetta vörslumönnum landsins, bændunum, þeim sem vinna með landinu og því ágæta fólki sem fer á þau námskeið sem frumvarpið snýst um. Það fjallar um að fá fólk til að kynnast náttúrunni, læra á það hvernig hugsa megi sem best um náttúruna og kynna þær náttúruperlur þar sem starfsstöðvar okkar í þessum málum eru. Það er af hinu góða. Ég, ásamt öðrum í umhverfisnefnd, styð þessa tillögu en ég frábið mér það sem kom fram hjá hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur, þ.e. þótt og ef við séum sammála frumvörpum gefist okkur þingmönnum ekki tækifæri að ræða málin. Það er af og frá. Það er öðruvísi en áður var þegar vinstri grænir voru á móti öllum mögulegum málum. (Gripið fram í.) Mér finnst skrýtið ef þeir þingmenn sem koma hér upp, taka til máls og fara yfir verk sem unnin hafa verið í viðkomandi nefnd og eru sammála því sem lagt hefur verið fram í frumvarpi, megi ekki tjá sig um mál af því að þeir eru ekki á móti þeim. Það eru einmitt þeir nýju stjórnarsiðir sem virðist eiga að taka upp á Alþingi.

Við sjálfstæðismenn höfum sagt að við viljum styðja að öll góð mál sem heyra til heilla fyrir fjölskyldur og fyrirtæki og við höfum lagt á það áherslu að þau mál fái forgang í þinginu, en að ráðast á okkur þegar við tökum jákvætt undir mál — mér finnast það ekki eðlileg vinnubrögð. Það eru ekki þau vinnubrögð sem ástunduð voru í fyrri ríkisstjórnum þegar menn töluðu í þrjá og upp í fimm, sex klukkutíma til að tefja þingstörf. Ég hef talað í tíu mínútur á jákvæðan hátt um frumvarp en verið skammaður af hv. stjórnarsinnum fyrir að voga mér að leggja gott til.