136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

náttúruvernd.

362. mál
[17:43]
Horfa

umhverfisráðherra (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Kjartani Ólafssyni fyrir jákvæðar undirtektir varðandi það mál sem hér er til umfjöllunar og mér dettur að sjálfsögðu ekki í hug að hv. þingmaður sé að reyna að tefja þingstörf þótt hann hafi reyndar farið örlítið út fyrir efnið í ræðu sinni og fjallað um Vatnajökulsþjóðgarð sem í sjálfu sér er ekki kjarni þess máls sem við fjöllum um hér.

Mig langar til að svara hv. þingmanni því til að Vatnajökulsþjóðgarður hefur nýverið auglýst tugi starfa laus til umsóknar. Þar eru nokkuð margir landverðir og allar þær stöður sem auglýstar voru, eru og verða í þjóðgarðinum.

Varðandi síðan starfsstöð framkvæmdastjóra þjóðgarðsins er það ekki á prjónunum einmitt núna á þessu augnabliki að flytja hana austur, enda er ekki búið að sjá hvar kjarnarnir verða niður komnir að endingu. Þeir verða fleiri en einn, eins og hv. þingmanni er kunnugt, og þann 16. apríl mun ég fara austur á Fljótsdalshérað og taka fyrstu skóflustungu að gestastofu að Skriðuklaustri sem verður ein af a.m.k. fjórum gestastofum í kringum garðinn. Það er svo sannarlega verið að vinna að málefnum Vatnajökulsþjóðgarðs á vegum umhverfisráðuneytisins og í umhverfisráðuneytinu og við erum að reyna að gera það besta úr málum miðað við niðurskurðinn sem varð á síðustu fjárlögum, fjárlögum yfirstandandi árs. Við höfum fengið færða til fjármuni yfir í rekstur til að geta haldið þeim dampi sem þingheimur allur hefur lýst miklum vilja yfir að verði haldið.

Varðandi vörslumenn landsins sem hv. þingmanni var tíðrætt um tek ég hjartanlega undir með honum heils hugar. Landverðir, bændur og aðrir vörslumenn landsins eiga að fá andrými til að starfa og stuðning frá Alþingi (Gripið fram í.) og það hafa þessir einstaklingar og aðilar alltaf fengið, frá a.m.k. þeirri sem hér stendur.