136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

náttúruvernd.

362. mál
[17:48]
Horfa

umhverfisráðherra (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get ekki svarað hv. þingmanni um það hvenær starfsstöð framkvæmdastjóra Vatnajökulsþjóðgarðs flyst austur. Það sem ég get hins vegar sagt hv. þingmanni núna er að ef ég fæ einhverju um það ráðið í nánustu framtíð mun ég taka stjórnsýslu þjóðgarða og friðlýstra svæða á Íslandi til endurskoðunar. Mín sýn í þeim efnum gengur út á það að stofnuð verði yfirstofnun yfir umsýslu þjóðgarða og friðlýstra svæða. Hún gæti svo sem verið hvar sem er á landinu en það verði einhvers konar hjarta yfir umsýslu allra þjóðgarðanna og þá er ég með Þingvallaþjóðgarð undir því. Ég held að það skipti verulegu máli að það sé stofnun sem samræmir alla stjórnsýslu á þessum friðlýstu svæðum okkar, þjóðgörðum, fólkvöngum, þjóðskógum og friðlýstum svæðum. Þetta eru gríðarleg verkefni sem hafa týnst í sameinaðri Umhverfisstofnun og mér hefur þótt það mjög miður.

Ég mælti gegn því á sínum tíma á Alþingi Íslendinga þegar Náttúruverndarráð var lagt niður og ég hef gagnrýnt það að náttúruverndarsvið Umhverfisstofnunar hafi ekki fengið byr í vængina. Ég kem til með að beita mér fyrir því, ef ég fæ einhverju um það ráðið, að stjórnsýsla þjóðgarða og friðlýstra svæða almennt verði efld mjög mikið.

Ég mun líka beita mér mjög kröftuglega fyrir því að öll náttúruvernd og verndaráætlun sé unnin í miklu samstarfi við heimamenn. Við vitum að við höfum misstigið okkur mjög þegar litið er til baka, hvernig okkur hefur mistekist í því að fá fólk á band náttúruverndar og hvernig okkur hefur mistekist að fá það samtal fram sem nauðsynlegt er. Okkur hefur hins vegar farið mjög mikið fram í því á síðustu árum að eiga þetta nauðsynlega samtal og reyna að efna til sátta og samstarfs um þau friðlýstu svæði og náttúruverndarsvæði sem komið er á á Íslandi og ég treysti því að við getum haldið áfram á þeirri góðu braut.