136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

náttúruvernd.

362. mál
[17:50]
Horfa

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get aftur þakkað hæstv. umhverfisráðherra fyrir það sem hér kom fram. Ég vil hins vegar nefna það hér að við skulum ganga hægt um gleðinnar dyr varðandi það að ætla að taka alla þjóðgarða á einu bretti undir eina stjórn. Hvers vegna segi ég það? Það er einmitt það að slíta ekki stjórnunina frá heimaaðilunum. Ég tel það vera mikilvægt að heimaaðilarnir komi að málum og stjórni málum á viðkomandi svæðum. Ég óttast það að þá yrði einn allsherjarkontór í Reykjavík sem færi að hafa yfirstjórn með öllum þjóðgörðum hvar svo sem þeir væru.

Ég efast ekkert, frú forseti, um vilja og áhuga hæstv. umhverfisráðherra á að gera vel í málaflokknum en við verðum samt að horfa til nýtingarsjónarmiða og verndunarsjónarmiða. Á það hefur stundum skort í samtölum okkar, hæstv. umhverfisráðherra og mín, og mér finnst að nýtingarsjónarmiðin verði að vera sterkari inni. En ég er, hef alltaf verið og mun verða áfram mikill náttúruverndarsinni og sérstaklega mikill gróðurunnandi og skógræktarmaður og þess vegna gef ég ekkert eftir hvað það varðar.