136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

náttúruvernd.

362. mál
[18:20]
Horfa

umhverfisráðherra (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eftir yfirferð hv. þm. Arnbjargar Sveinsdóttir á umsögnum sem komu fram við málið, þá er ljóst að athugasemdirnar sem hún reifaði hafa verið það vel skoðaðar í nefndinni að farið er eftir ábendingum sem koma í umsögnunum og voru reyndar komnar fram, eins og kannski hv. þingmann rekur minni til, í 1. umr. um málið. Í þeirri umræðu óskaði ég eftir því við nefndina að nokkur þeirra álitamála sem hreyft er í umsögnunum fengju sérstaka skoðun nefndinni. Mér er kunnugt að svo var gert enda ber breytingartillaga nefndarinnar þess glöggt merki. Mér sýnist líka ljóst að nefndin hafi farið vel yfir þessar tillögur og náð niðurstöðu því að allir þingmenn nefndarinnar, úr öllum flokkum, skrifa undir nefndarálitið án fyrirvara, þar með flokksbræður hv. þingmanns, Kjartan Ólafsson, Jón Gunnarsson og Árni M. Mathiesen. Ég sé ekki neina ástæðu til að draga það í efa að nefndin hafi náð einróma niðurstöðu um breytingartillöguna sem nefndin flytur og ég vil að það komi fram hér að ég er mjög sátt við þá tillögu. Ég geri ekki athugasemd við breytingartillögu nefndarinnar vegna þess að mér finnst það vera vel rökstutt, bæði í nefndarálitinu og umsögnunum sem hv. þingmaður vitnar til, hvernig breytingartillagan er vaxin.

Varðandi það að með breytingartillögunni verði umhverfisráðherra skylt að setja reglugerð um þær kröfur sem gera á til þeirra sem stunda landvörslu, þá verður auðvitað áfram litið til þeirra umsagna sem hv. þingmaður nefnir, eins og t.d. umsagnar Náttúrufræðistofnunar Íslands um að taka þurfi fram í slíkri reglugerð að landverðir og þeir sem veljist til landvörslu þurfi að kunna skil á náttúru Íslands.