136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

náttúruvernd.

362. mál
[18:24]
Horfa

umhverfisráðherra (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ástæða þess að þessu námskeiði er fyrir komið með þeim hætti sem raun ber vitni á sér nokkuð langa sögu, ég get a.m.k. rakið hana aftur til 26. janúar 1990 þegar gildandi reglugerð var sett. Margt hefur breyst síðan sú reglugerð var sett, bæði hefur stöðum landvarða fjölgað gríðarlega mikið og eins hafa kröfurnar sem gerðar eru til þeirra sem sinna þessum störfum verið auknar. Ferðaþjónustunni hefur vaxið fiskur um hrygg og ferðamönnum fjölgað gríðarlega mikið. Þörfin hefur að hluta til kallað á breytt landslag í þessum efnum og breyttar kröfur til landvarða. Núgildandi reglugerð sem undirrituð var 26. janúar 1990 er í sjálfu sér löngu fallin úr gildi en þar er sagt að Náttúruverndarráð eigi að standa fyrir námskeiðum í náttúruvernd þar sem megináhersla sé lögð á Ísland, náttúrufar og þjóðlíf, á náttúruvernd almennt, umhverfisrétt, dagleg störf landvarða og umhverfisfræðslu og umhverfistúlkun. Þetta er hin sögulega skýring.

Ég er hins vegar tilbúin til þess að skoða umsögn Landvarðafélagsins. Ég veit ekki betur en að það tíðkist núna að landverðir sem fara í gegnum námskeiðið og fá starf hjá Umhverfisstofnun við landvörslu, fái endurgreitt a.m.k. hluta af námskeiðsgjaldinu. Ég skal ekki fullyrða þetta en ég skal lofa hv. þingmanni því að ég mun skoða þetta atriði úr umsögn Landvarðafélagsins og sjá til þess að þessum málum verði fyrir komið á eins réttlátan hátt og mögulegt er.