136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[21:41]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Greinargerð með frumvarpinu eða athugasemdir við frumvarpið svara því sem ég er að segja. Það stendur á síðu 4, með leyfi hæstv. forseta:

„Hagkvæmnisathuganir á varmadælum sem og viðarkyndingu benda til þess að slíkir kostir séu ekki samkeppnisfærir við niðurgreitt rafmagn til húshitunar nema stofnkostnaður sé að hluta niðurgreiddur.“

Það er niðurgreiðsla öðrum megin sem gerir það að verkum að það þarf að niðurgreiða hinum megin líka. Þetta er galið, herra forseti. Síðan stendur að orkunotkun húsa á köldum svæðum hafi verið skoðuð sérstaklega og að á orkuþingi 2006 hafi sérfræðingar kynnt niðurstöður könnunar á raforkunotkun til hitunar íbúðarhúsnæðis á köldum svæðum. Sérfræðingarnir við grænu borðin eru sem sagt að hanna fyrir íbúana möguleika á því að einangra húsin betur.

Af hverju í ósköpunum gera íbúarnir þetta ekki sjálfir? Vegna þess að orkan er niðurgreidd. Ef orkan væri ekki niðurgreidd væri þetta ekki vandamál, þá mundu menn einangra sjálfir af því að það borgaði sig. Þá mundu menn búa til varmadælur og viðarkyndingu af því að það borgaði sig. En vegna þess að menn niðurgreiða og skekkja markaðinn þá er búið að skemma hvöt íbúanna til að einangra og leita að öðrum lausnum. Þess vegna eru menn að niðurgreiða á báðum endum í staðinn fyrir að taka upp búsetustyrki þar sem maðurinn fær bara sína milljón eða hvað það nú er og má ráðstafa því eins og hann vill, annaðhvort að búa við minni hita í íbúðinni, einangra betur, nota viðarkol eða varmadælu eða bara hvað sem honum dettur í hug og nota sína peninga sjálfur en ekki vera að niðurgreiða af öðrum endanum og þurfa svo að niðurgreiða af hinum endanum líka.