136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[21:45]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég var ekkert að leggja til að þetta yrði afnumið. Ég var bara að tala um annars konar greiðslur, menn fengju búsetustyrki miðað við stærð fjölskyldu.

Ég hugsa að þegar hv. þingmaður talar um 5.000 á móti 15.000 þá sé hinn raunverulegi kostnaður 5.000 á móti 60.000, eða alla vega 30.000, ég þekki það ekki nákvæmlega. Ef fólk færi að borga 50.000 kr. á mánuði, við skulum segja það, kemur verulegur hvati bæði til að auka einangrun og leita að öðrum leiðum. En fólkið fengi (Gripið fram í.) peningana engu að síður. Það fengi það sem beingreiðslu, búsetustyrk fyrir að búa á þessu kalda svæði.

Ég er ekkert að tala um að spara þennan milljarð. Ég er bara að velta því fyrir mér að borga þetta til fólks og síðan borgi það fullt orkuverð og þá er hvati til þess bæði að nota viðarkyndingu og þá kosti sem nefndir hafa verið með fjarhitun, einangrun og annað. Það kæmi af sjálfu sér. Það myndi gerast í kjölfarið. Ekki þyrfti að niðurgreiða það líka, það er það sem ég á við. Menn niðurgreiða fyrst orkuna og skekkja samkeppnina og svo niðurgreiða þeir aftur á móti samkeppnisorku, í staðinn fyrir að láta fólk fá þessa peninga og svo getur það ráðstafað því sjálft. Þá er ég viss um að mönnum myndi ofbjóða að borga 50.000 kr. í kostnað við hitun og mundu leita logandi ljósi að leiðum til að bæði einangra betur og leita að öðrum orkugjöfum eins og fjarhitun eða eitthvað slíkt.