136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[22:05]
Horfa

Frsm. iðnn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel þetta ekki vera rétta túlkun hjá hv. þingmanni vegna þess að það sem hér um ræðir er að fjármunum verður forgangsraðað og í stað þess að vera stofnstyrkir til hitaveitna í þeim mæli sem þeir hafa verið verður þeim varið til að mæta orkusparandi aðgerðum í dreifðari og strjálbýlli byggðum. Þetta tel ég að hafi komið skýrt fram.

Ég held, virðulegi forseti, að þetta muni ekki og eigi ekki að hafa mælanleg áhrif á niðurgreiðslu til íbúanna sjálfra þar sem verið er að breyta áherslum í ljósi breyttra aðstæðna og þess að uppbygging er langt komin, þ.e. tilfærsla íbúða frá raflögn eða rafhitun yfir í hitaveitur er langt komin. Nú eru þessi verkefni eftir, þ.e. að bæta bæði húsnæði, eins og hv. þingmaður Pétur H. Blöndal kom inn á áðan, einangra það betur og mæta kostnaði við slíkt og mæta orkusparandi aðgerðum. Þetta á ekki að hafa mælanleg áhrif á rafmagnsreikninga þeirra sem hafa notið þessara niðurgreiðslna. (Gripið fram í.)