136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

visthönnun vöru sem notar orku.

335. mál
[22:32]
Horfa

Herdís Þórðardóttir (S):

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu frumvarp til laga um visthönnun vöru sem notar orku.

Frumvarpið byggist að meginstefnu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins frá 6. júní 2005.

Tilgangur þessa frumvarps er eins og fram kemur í 1. gr. að stuðla að þróun og notkun orkunýtinnar vöru með það að markmiði að tryggja visthönnun vöru með minni orkunotkun og draga úr áhrifum orkunotkunar á umhverfið.

Frumvarpinu er líka ætlað að tryggja frjálst flæði vöru af þessum toga um EES-svæðið. Frumvarpinu er ætlað að taka til hvers konar vöru sem notar orku, þó ekki farartækja eða tækja sem þegar hafa verið tekin í notkun og það gengur líka út á það að koma í veg fyrir að hér sé markaður með vöru sem ekki er heimilt að nota á hinu Evrópska efnahagssvæði. Hér á landi eru næstum engir framleiðendur að þeim vörum sem tilskipunin nær til. En við þurfum samt að innleiða þessa tilskipun. Hins vegar er mikilvægt að sömu reglur gildi hér og annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu þannig að ekki (Gripið fram í.) sé hægt að flytja vörur til landsins sem ekki má markaðssetja í öðrum EES-ríkjum.

Framkvæmdastjóri Evrópusambandsins hefur lagt fram vinnuáætlun fyrir árin 2009–2011 sem hefur að geyma það sem kalla má leiðbeinandi lista yfir vörur sem eiga að hafa forgang við setningu ítarlegra reglna um orkunýtingu. Þær vörur sem við erum að tala um geta meðal annars verið vörur sem byggjast á talsverðri orkunýtingu eins og loftræstikerfi, kynditæki, varmadælur, matreiðslutæki og annar rafbúnaður sem við notum hér. (Gripið fram í.)

Markmið tilskipunarinnar er að draga úr álagi vara sem nota orku á umhverfið með því að hvetja framleiðendur til að haga hönnun sinni þannig að hún taki mið af umhverfislegum sjónarmiðum. Samkvæmt tilskipuninni verða framleiðendur að sýna fram á áhrif vörunnar á umhverfið, hafa hliðsjón af niðurstöðum greiningar á vistferli vöru og bjóða neytendum upplýsingar um áhrif vöru á umhverfið. Allt þetta gefur til kynna að framleiðandi skuli nálgast þróun vörunnar út frá umhverfislegu sjónarmiði allt frá upphafi með það að leiðarljósi að bæta umhverfisleg áhrif framleiðslunnar og vörunnar sjálfrar.

Frumvarpið stuðlar að bættri orkunýtingu og gerir fólk meðvitaðra um náttúrulegt umhverfi þess og hvernig best sé að varðveita það og viðhalda því. Það hefur verið reiknað út hvað hægt sé að ná gríðarlega miklum árangri varðandi sparnað á orku ef fólk er meðvitað um hvað hægt sé að spara í orku eins og kom fram í ræðunni hér á undan hjá hv. formanni nefndarinnar. Varðandi það að spara orku þá er það bæði ljósanotkun í heimahúsum og annað sem fólk spáir ekki í dag og telur sjálfsagðan hlut, þ.e. allt í lagi þó ljós séu alls staðar. Enginn spáir í það af því að við höfum nóg af þessu. Þess vegna segi ég að breyting þarf að verða í hugsunarhætti fólks. Það þarf að gera fólk meðvitaðra um hvar hægt sé að spara orku og hvernig hægt sé að draga úr orkunotkun og um leið og fólk gerir það þá sparast um leið peningar.

Í umsögn um frumvarpið sem hv. iðnaðarnefnd barst frá Viðskiptaráði Íslands tekur það undir mikilvægi þess að stuðla að þróun og notkun orkunýtinnar vöru í því markmiði að tryggja visthönnun vöru með minni orkunotkun og draga þar með úr áhrifum orkunotkunar á umhverfið. Eðlilegt er að íslenskir framleiðendur tryggi að vörur þeirra uppfylli kröfur sem almennt eru settar á EES-svæðinu í þessum efnum.

Líkt og fram hefur komið mun frumvarpið ekki hafa mikil áhrif á framleiðendur á Íslandi og er þörfin að vissu leyti takmörkuð þar sem mestöll staðbundin orkunotkun byggist á orku frá endurnýjanlegum orkulindum. Hins vegar er lagasetning nauðsynleg til að tryggja samræmda löggjöf EES-svæðisins og til að koma í veg fyrir að hingað sé hægt að flytja vörur sem ekki uppfylla kröfur annars staðar á EES-svæðinu.

Hæstv. forseti. Í nefndaráliti sem hér kom fram áðan kemur fram að þessu frumvarpi er ætlað að taka til hvers konar vöru sem notar orku að undanskildum farartækjum og tækjum sem þegar hafa verið tekin til notkunar, markaðssett eða verið flutt inn við gildistöku laga samkvæmt frumvarpinu.

Fyrir nefndinni komu fram athugasemdir um að Neytendastofu einni væri falið eftirlit og dagleg stjórnsýsla eins og fjallað er um í 10. gr. frumvarpsins. Nefndin bendir á að Neytendastofa fer með almenna markaðsgæslu og hefur eftirlit með því hvort tilteknar vörur uppfylli skilyrði og beri CE-samræmismerkingar. Ef vara sem notar orku ber ekki CE-merkingu tekur Neytendastofa vöruna til skoðunar. Komi upp tilvik þar sem markaðsgæslan leiðir í ljós hugsanlegt brot á lögunum getur Neytendastofa leitað álits hjá öðrum aðila sem hefur sérþekkingu á viðkomandi vöru. Nefndin áréttar að þessi þáttur frumvarpsins var sendur til ráðgjafarnefndar forsætisráðuneytis um opinberar eftirlitsreglur og gerði nefndin engar athugasemdir.

Nefndin telur nauðsynlegt að frumvarpið verði að lögum til að tryggja samræmda löggjöf innan EES og til að koma í veg fyrir að í framtíðinni verði hingað fluttar inn vörur sem uppfylla ekki kröfur annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu.

Við, fulltrúar minni hluta í hv. iðnaðarnefnd, leggjum til að þetta frumvarp verði samþykkt. Í umsögn frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins segir, með leyfi forseta:

„Tilgangur þessa frumvarps er að stuðla að þróun og notkun orkunýtinna vara með það að markmiði að tryggja visthönnun vöru með minni orkunotkun og draga úr áhrifum orkunotkunar á umhverfið. Auk þess er frumvarpinu ætlað að tryggja frjálsa för slíkra vara um EES-svæðið. Frumvarpið byggir á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2005/32/ESB, um vistvæna vöruþróun.

Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.“

Eins og ég gat um áðan höfum við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í iðnaðarnefnd, hv. þingmenn Kristján Þór Júlíusson og Björk Guðjónsdóttir tekið þá afstöðu að líta jákvætt á þetta frumvarp og við erum því samþykk.