136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

visthönnun vöru sem notar orku.

335. mál
[22:42]
Horfa

Jón Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Ég hef hlustað á mjög merkar ræður allt frá því að hv. þm. Katrín Júlíusdóttir mælti fyrir þessu máli og ég hóf að skoða það í framhaldi af þessu. Þarna komu fyrir eyru alls kyns hugtök og sjónarmið sem maður á ekki að venjast í almennu lagamáli. Ég velti fyrir mér meiningu ákveðinna hluta og hvaða tilgangi þeir þjóna, hvort þarna sé auðskilið hvað við er átt eða hvort þarna sé verið að semja lög sem stuðli að því að menn úr minni starfsstétt, þ.e. lögmennsku, geti fyrir dómstólum haft ærinn starfa af því að velta fyrir sér hvernig skýra eigi einstök hugtök sem koma fram í þessu ágæta frumvarpi.

Nú skal það tekið fram að það skal jú virða viljann fyrir verkið. Þarna eru ákveðin sjónarmið og hlutir sem eru góðra gjalda verðir. Ég velti því hins vegar fyrir mér hvort menn nái þeim árangri sem að er stefnt með því að t.d. í 1. gr. — svo að ég bendi á ákveðna hluti sem þar koma fram — segir, með leyfi forseta:

„Tilgangur laga þessara er að stuðla að visthönnun vöru sem notar orku.“

Með þessu segjum við að ekki eigi að stuðla að visthönnun vöru sem ekki notar orku eða er þetta eingöngu bundið við slíkar vörur og þá með það að markmiði að efla hönnun, framleiðslu og notkun á vöru sem eru umhverfisvænar? Má þá ekki efla hönnun, framleiðslu og markaðssetningu eða visthönnunarvöru sem nota orku sem ekki eru umhverfisvænar? Má ekki framleiða vöru sem ekki er umhverfisvæn? Með hvaða hætti á að skilja og skilgreina einstök hugtök í þessu sambandi? Þarna eru orð og orðalag sem að vísu eru skilgreind með ákveðnum hætti í 3. gr. en það er þó alls ekki tæmandi.

Fjallað er um visthönnun í 3. gr. og þar er og skilgreining á henni sem felur í sér að fella umhverfisþætti inn í vöruhönnun í því skyni að bæta vistvænleika vöru allan vistferil hennar. Hvað þýðir þetta í raun, að fella umhverfisþætti inn í vöruhönnun í því skyni að bæta vistvænleika vöru allan vistferil hennar?

Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, að það þvælist dálítið fyrir mér að setja þessa skýringu í vitrænt samhengi og með hvaða hætti eigi að ná þeim markmiðum að visthönnun geti í öllum tilvikum fest umhverfisþætti inn í vöruhönnun í því skyni að bæta vistvænleika vöru allan vistferil hennar.

Hvað er átt við með öllum vistferli vöru? Ég get ekki skilið það með öðrum hætti en að átt sé við það sem til er ágætt orð yfir á íslensku, þ.e. líftíma vörunnar, þann tíma sem varan er í notkun.

Síðan er skilgreining í f-lið í 3. gr. sem er vistferill, það eru samfelld og samtengd stig í ferli vöru, þannig að ef ekki er um samtengt stig en samt samfellt er ekki um vistferil að ræða, samkvæmt þessari orðaskýringu. Ég velti því satt að segja fyrir mér hvort þessi orð og hugtakanotkun séu eðlileg og hvort rétt sé að afgreiða lög með þessu orðalagi frá Alþingi. Markmiðssetningin í 1. gr. í lagafrumvarpinu er þar að auki nokkuð snúin.

Ég man eftir því þegar ég var í þýskunámi í menntaskóla var þar setning sem náði yfir tæpa blaðsíðu. Í 1. gr. frumvarpsins er fjallað um markmiðssetningu en 1. gr. öll er ein setning upp á þrjár línur sem gerir það að verkum að hún verður mjög snúin, torskilin og illskiljanleg:

„Tilgangur laga þessara er að stuðla að visthönnun vöru sem notar orku með það að markmiði að efla hönnun, framleiðslu, markaðssetningu og notkun á vörum sem eru umhverfisvænar, með minni orkunotkun og umhverfisálag að leiðarljósi. “

Ég verð að segja að mér hefði fundist ástæða til þess að fá einhvern góðan íslenskumann, virðulegi formaður iðnaðarnefndar, hv. þm. Katrín Júlíusdóttir, til þess að yfirfara þennan texta og hafa hann á almennilegri og viðunandi íslensku. Ég bendi á ágætan mann, Mörð Árnason, sem er í sama flokki og hv. þm. Katrín Júlíusdóttir, hann er mjög orðspakur og hefur ekki legið á liði sínu hér á Alþingi. Hann gæti væntanlega komið markmiðssetningargreininni í 1. gr. á eðlilega íslensku á stuttum tíma þannig að þar væri eðlileg setningaskipan og vel frá henni gengið svo að venjulegt fólk geti skilið hvað verið er að tala um.

Ég hef nú alltaf gaman að því þegar menn búa til samansettar setningar með alls kyns nýyrðaflaumi eins og hér er gert en það er ekki til þess fallið að gera lagasetningu einfaldari eða gagnsærri. Það er miklu frekar til þess fallið að valda erfiðleikum í framtíðinni.

Síðan segir í 2. gr. að í lögum þessum sé að finna grunnkröfur sem vörur sem nota orku skuli uppfylla.

Kemur það ekki fram í lögunum sjálfum? Þarf að taka fram að það sem komi fram í lögunum sé með þeim hætti sem um getur í fyrstu setningu 2. gr.? Er ekki eðlilegt að stytta lögin og láta lögin tala fyrir sig sjálf? Af hverju setja menn svona inn í lagasmíð?

„Í lögum þessum er að finna grunnkröfur sem vörur sem nota orku skulu uppfylla svo að setja megi þær á markað og taka í notkun.“

Það kemur fram í lögunum og þarf ekki að taka það sérstaklega fram í þessari setningu að ákveðnir hlutir komi fram í lögunum. Ég vek athygli á þessu af því að mér finnst að nefndinni hafi sést þarna yfir hvernig eðlilegt er að afgreiða hluti frá sér þannig að það sé gert með sem einföldustum hætti.

Ég átta mig á því að hér er meira og minna verið að þýða ákveðin ákvæði og vísað til og reynt að setja inn ákveðna tilskipun Evrópusambandsins með því að búa til orðaflaum eins og sjá má í þessu frumvarpi. Mér finnst örla á því í mörgum málum að þess sé ekki gætt að nota einfalt orðalag sem sé skiljanlegt venjulegu fólki. Ég fer fram á að nefndin hugi að því hvernig megi koma þessu frumvarpi í það horf að það sé á almennri íslensku, ekki á einhverjum hugtakagrundvelli sem eingöngu sérhæfðir orðasmiðir og hugtakafræðingar geta áttað sig á hvað þýðir.

Ef haldið er áfram segir þarna, með leyfi forseta:

„Ef ekki er annað tekið fram er með hugtakinu vara í lögum þessum eingöngu átt við vöru sem notar orku, sbr. skilgreiningu í 3. gr.“

Hér vantar greinilega inn orð: „Ef ekki er annað tekið fram er með hugtakinu vara í lögum þessum eingöngu átt við vöru sem notar orku, samanber skilgreiningu í 3. gr.“ Þá á væntanlega að koma, ef ekki er annað tekið fram í orðalaginu, „vara í lögum þessum er eingöngu átt við vöru sem notar orku samanber skilgreiningu 3. gr.“ Ég reikna með því að „er“ sé orðið sem vantar en eins og setningin er í frumvarpinu er þetta óskiljanlegt. Þetta er ekki eðlilegt samhengi. En ég reikna með að þarna hafi bara fallið út orð þannig að það megi leiðrétta. Ég sé ekki í nefndarálitinu að vikið sé að þessu en þarna sýnist mér að hefði þurft að koma inn breyting.

Þá segir í seinni málsgrein eða 2. mgr. 2. gr.

„Lögin taka til nýrrar vöru og íhluta og undireininga hennar, sem nýta orku, og flutt er inn, tekin í notkun eða framleidd hér á landi eftir gildistöku laga þessara.“

Það þýðir það að lögin taka ekki til vöru eða íhluta eða undireininga sem nýta orku og flutt er inn eða tekin í notkun eða framleidd fyrir gildistöku laganna.

Af hverju á að gera þennan greinarmun? Er ekki um visthönnun vöru að ræða sem notar orku og geta lögin ekki tekið tillit til þess og samkvæmt eðli máls og aðstæðum haft gildi sem slík? Þá er undantekning þess efnis að lögin taka ekki til farartækja eða vöru sem notar orku og hefur þegar verið tekin í notkun.

Þá velti ég því fyrir mér hvort þessi málsgrein eigi nokkurn rétt á sér miðað við 2. mgr. 2. gr., hvort hún tæmir ekki það að þessum hluta líka. Þannig að lögin taka til nýrrar vöru og íhluta og undireininga hennar, sem nýta orku, og flutt er inn, tekin í notkun eða framleidd hér á landi eftir gildistöku laga þessara. Nei, það er að vísu misskilningur. Það tæmir ekki þannig að þessi athugasemd á ekki við.

Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að fjalla frekar um þetta frumvarp að sinni og ég er nú ekki mikill sérfræðingur í þeim málum sem frumvarpið fjallar um. Ef dæma má af greinargerð frumvarpsins mun þetta vera vel nýtanlegt fyrir neytendur þessa lands og hlýt ég þá að fagna því að hag þeirra skuli vera betur borgið en ella hefði verið. Ég get því í sjálfu sér sætt mig við að svo fari fram sem iðnaðarnefnd, að Einari Má Sigurðarsyni fjarverandi, leggur til, að þetta frumvarp verði samþykkt með þeirri breytingu sem þar er fjallað um.

Ég hefði þó talið eðlilegt að nefndin tæki málið til skoðunar aftur með tilliti til þeirrar orðanotkunar sem ég hef gert að umtalsefni hér og léti hreinlega yfirfara frumvarpstextann til þess að setja hann á eðlilega íslensku og reyna eftir fremsta megni að nota orð og orðasambönd sem eru svona í samræmi við íslenska setningafræði sem mér finnst í sumum tilvikum nokkuð skorta á hvað varðar orðalag og samtengingar í þessu frumvarpi.

Af því hv. þm. Katrín Júlíusdóttir formaður nefndarinnar er komin í salinn þá ítreka ég það sem ég ræddi áðan, mér sýnist að í annarri setningu 1. mgr. 2. gr. þar sem fjallað er um gildissvið, vanti inn orð en þar segir:

„Ef ekki er annað tekið fram er með hugtakinu vara í lögum þessum eingöngu átt við vöru sem notar orku, samanber skilgreiningu í 3. gr.“

Þá sýnist mér að þarna vanti orðið „er“ til þess að það komi í eðlilegu samhengi inn í setninguna.

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir með hv. iðnaðarnefnd að mæla með því að þetta frumvarp verði samþykkt en mælist til þess við nefndina að hún taki málið til nefndar á milli 2. og 3. umr. til þess að endurskoða orðalag og orðaval í frumvarpinu.