136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

visthönnun vöru sem notar orku.

335. mál
[23:02]
Horfa

Frsm. iðnn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Því er auðvelt að svara. Það er vegna þess að frumvarpið nær til fleiri þátta en eingöngu merkinganna. Ég tók merkingarnar sérstaklega fram vegna þess að ég hélt að þær væru mögulega á áhugasviði hv. þingmanns. Ég veit að það eru áhugasvið okkar beggja að neytendur á Íslandi geti valið sér vörur á upplýstan hátt sem sparar þeim bæði orku og ekki síst peninga.

Virðulegi forseti. Frumvarpið tekur til fleiri þátta eins og kemur glöggt fram þegar það er lesið. Til dæmis er farið yfir orkunýtnikröfur, fjallað er um samræmismat, hvatt er til þess að framleiðendur stuðli að þróun á notkun orkunýtinnar vöru með það að markmiði að tryggja visthönnun vörunnar með minni orkunotkun.

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta mjög skýrt og ég held að nefndin hafi farið þó nokkuð vel í gegnum þessa orðanotkun. Eins og ég benti hv. þingmanni á gerum við breytingartillögu um að felld verði út t.d. aukasetning í a-lið 3. gr. Við gerum breytingartillögu um að ekki sé notað orðskrípi eins og orkuílag sem ég er viss um að hefði angrað hv. þingmann mjög og gerir það án efa þegar hann les frumvarpið yfir. Við erum að gera slíkar breytingar í nefndarálitinu með það að markmiði að skýra textann og gera hann aðgengilegri fyrir þá sem síðar ætla að nota hann. Ég vona að hv. þingmanni líki þær breytingartillögur sem nefndin gerir í þessu efni vegna þess að það var fyrst og fremst gert til að skýra orðalagið í lagatextanum. Þetta eru ekki efnisbreytingar.