136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

raforkulög.

398. mál
[23:11]
Horfa

Frsm. iðnn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá iðnaðarnefnd um frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003, með síðari breytingum.

Með frumvarpinu er lagt til að framkvæmd ákvæða raforkulaga varðandi aðgreiningu samkeppnis- og sérleyfisþátta verði frestað til 1. janúar 2010. Ákvæði þau sem hér um ræðir voru samþykkt á Alþingi með lögum nr. 58/2008, um breytingu á nokkrum lögum á auðlinda- og orkusviði, en þau lög fólu m.a. í sér breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003, í þá veru að gerð er krafa um að samkeppnis- og sérleyfisstarfsemi orkufyrirtækja verði rekin í aðskildum fyrirtækjum frá og með 1. júlí 2009.

Frumvarpinu er ætlað að breyta því, þ.e. lengja þetta um hálft ár til 1. janúar nk. Í kjölfar lagabreytinganna átti sér stað 1. janúar 2009 — þetta snertir aðallega tvö fyrirtæki, virðulegi forseti — formleg uppskipting Hitaveitu Suðurnesja hf. í HS Orka hf., sem annast virkjanir og raforkusölu, og HS Veitur hf., sem annast veitustarfsemi fyrirtækisins. Fram kom á fundi nefndarinnar að uppskiptingu væri ekki að fullu lokið hjá Hitaveitu Suðurnesja. En þó væri hugsanlegt að því gæti lokið fyrir 1. júlí þó svo væri ekki orðið nú.

Orkuveita Reykjavíkur óskaði eftir því með bréfi 20. febrúar sl. að iðnaðarráðherra flytti frumvarp til laga um frestun gildistöku breytingar á 14. gr. raforkulaga. Taldi Orkuveita Reykjavíkur varhugavert að skipta fyrirtækinu upp meðal annars með vísan til þess að frá því að lögin um breytingu á nokkrum lögum á auðlinda- og orkusviði tóku gildi hafi orðið verulegar breytingar á fjárhagslegu umhverfi orkufyrirtækja, gengi íslensku krónunnar hafi veikst og erlendar skuldir Orkuveitu Reykjavíkur hafi hækkað mikið og eiginfjárhlutfall lækkað milli áranna 2008–2009. Þá telji Orkuveita Reykjavíkur að breytingar á rekstrarumhverfi hennar áður en fjármögnun er lokið kunni að tefja fyrir gerð lánasamninga.

Virðulegi forseti. Nefndin telur í ljósi þeirra aðstæðna sem nú eru á fjármálamörkuðum og viðkvæmrar stöðu orkufyrirtækjanna varðandi fjármögnun að eðlilegt sé að fresta tímabundið framkvæmd ákvæða 14. gr. raforkulaga og veita aukið svigrúm til að aðskilja sérleyfis- og samkeppnisþætti orkufyrirtækjanna til 1. janúar 2010.

Nefndin er algerlega einróma í afstöðu sinni til þess að frumvarpið verði samþykkt.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn iðnaðarnefndar, Katrín Júlíusdóttir, sú er hér stendur, Álfheiður Ingadóttir, Eygló Harðardóttir, Helgi Hjörvar, Herdís Þórðardóttir, Kristján Þór Júlíusson, Björk Guðjónsdóttir og Grétar Mar Jónsson.