136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

raforkulög.

398. mál
[23:38]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil mótmæla því mjög að ég hafi talað gáleysislega. Ég vitnaði í framsöguræðu hæstv. iðnaðarráðherra (Gripið fram í.) við framsögu þessa máls. (Iðnrh.: Ég sagði aldrei að það væri vá fyrir dyrum, eins og þingmaður sagði.) Ég bara spurði, það má leiða líkur að því miðað við það sem segir í þessari framsöguræðu og hvernig hæstv. ráðherra skýrir framlagningu málsins að þarna hafi einhver vá verið fyrir dyrum vegna gerð lánasamninga. Er ekki eðlilegt, hæstv. forseti og hæstv. ráðherra, að fá á þessu eðlilegar skýringar?

Ég vil jafnframt óska eftir því að hæstv. ráðherra skýri stöðu Orkusölunnar í þessu, því hér kemur fram að Orkusalan telur að þetta frumvarp muni hafa skaðleg áhrif á samkeppnisstöðu sína. Orkusalan er auðvitað fyrirtæki sem er undir ráðuneyti hæstv. iðnaðarráðherra og því hlýtur hann að hafa fylgst með afstöðu fyrirtækisins, sem sendi inn athugasemd við frumvarpið, sem hæstv. ráðherra mælti fyrir. (Forseti hringir.) Þannig að einhver núningur er þarna, hæstv. ráðherra, (Forseti hringir.) og gott væri að (Forseti hringir.) fá skýringar á því.