136. löggjafarþing — 112. fundur,  25. mars 2009.

fundarstjórn.

[00:08]
Horfa

Jón Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Ég átta mig ekki fyllilega á því hvað var samþykkt hér í dag. (Gripið fram í: Varstu þá vakandi?) Og er enn hv. þingmaður. En það er nú þannig að það eru boðaðir nefndafundir klukkan hálfníu í fyrramálið og síðan áfram, a.m.k. hvað mig varðar. Þá hlýtur maður náttúrlega að spyrja hve meiningin er að halda lengi áfram fram á nótt.

Hæstv. forseti talaði um að það ætti að skoða hvað nóttin mundi endast. Og nóttin endist náttúrlega þangað til að morgunn rís. En það verður að setja ákveðið mark á þessar umræður. Það er ekki hægt að halda áfram og halda þingmönnum hér í nótt, að þeir fái ekki eðlilega hvíld áður en þeir ganga til ábyrgðarstarfa í fyrramálið. Ég hlýt að gera kröfu til þess að það verði sett ákveðin viðmiðun um það með hvaða hætti og hvenær þingfundi verði lokið.

Við erum loks komin að umræðu um ákveðið frumvarp og það er mjög mikilvægt frumvarp sem er næst á dagskrá, um ábyrgðarmenn, sem ég hefði kosið að fengi afgreiðslu sem fyrst. En (Forseti hringir.) spurningin er hvort hægt sé að ná samkomulagi um að ljúka fundinum með (Forseti hringir.) þeim hætti og láta þingfundi lokið þegar umræðunni um ábyrgðarmannafrumvarpið lýkur?