136. löggjafarþing — 112. fundur,  25. mars 2009.

ábyrgðarmenn.

125. mál
[01:00]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég tek undir mjög margt af því sem fram kom í máli hv. þm. Péturs Blöndals. Ég ætla fyrst að nefna, til að hafa nefnt það, að ég er sammála honum um að auðvitað er vont að þurfa að ræða þetta hér í náttmyrkrinu en það leiðir til þess að ég stytti mál mitt miðað við það sem kannski hefði ella orðið.

Ég tek fyrst og fremst til máls til að taka undir þau sjónarmið sem hafa komið fram að mál þetta er almennt mikið framfaramál og í sjálfu sér mjög æskilegt að þróunin verði í þá átt sem frumvarpið gerir ráð fyrir, að mjög verulega dragi úr persónulegum ábyrgðum í sambandi við lánveitingar. Í því ljósi geri ég eins og aðrir ræðumenn hér í kvöld og fagna þeirri yfirlýsingu sem kom í dag frá Kaupþingi og vona að fleiri lánveitendur fylgi í kjölfarið

Ég held að það sé alveg hárrétt sem hefur komið fram hér, bæði af hálfu formanns nefndarinnar og hv. þm. Péturs Blöndals, að það sem frumvarpið felur í sér í meginatriðum er auðvitað það að lánveitendur þurfa að gæta sín betur og sýna meiri ábyrgð í sambandi við lánveitingar. Þeir þurfa að íhuga betur greiðslugetu þess sem þiggur lánið og geta ekki baktryggt sig með því að fara einhverjar krókaleiðir ábyrgðarmanna sem geta, eins og lýst hefur verið, leitt til mjög sorglegra og óheppilegra tilvika, eins og hv. þm. Pétur Blöndal rakti mörg dæmi um. Slík dæmi eru fjöldamörg og fjölbreytileg og í mörgum tilvikum alveg óskaplega sorgleg.

Þess vegna fagna ég ákvæðum frumvarpsins og tel að þau horfi til framfara. Ég vil taka fram að við yfirferðina í nefndinni sýndist mér og ég taldi að breytingartillögurnar sem gerðar voru séu til þess fallnar að koma til móts við margar af þeim athugasemdum sem fram komu í störfum nefndarinnar.

Ég og fleiri nefndarmenn gerðum fyrirvara við nefndarálitið, þó að við styddum það að taka málið út úr nefndinni og styddum málið í heild gerðum við ákveðna fyrirvara. Í mínu tilviki var það sérstaklega varðandi 8. gr. Það er ekki á þeirri forsendu að mér finnist reglan, sem þar er lögð til, ósanngjörn. En ég játa að þegar málið kom til afgreiðslu í nefndinni hafði ég og hef raunar enn nokkrar áhyggjur af lagatæknilegum þáttum í þessu sambandi, einkum í ljósi athugasemda frá bæði Lögmannafélaginu og réttarfarsnefnd, sem lúta sérstaklega að því ákvæði og mundi í ljósi þess fyrirvara sem ég gerði áskilja mér rétt til að óska eftir því við atkvæðagreiðslu að málið gangi aftur til nefndar milli 2. og 3. umr. út af því tiltekna atriði til að betra ráðrúm gefist til að átta sig á þeim lagatæknilegu þáttum sem snúa sérstaklega að ákvæðinu.

Í nefndarálitinu er ýmsum röksemdum, sem fram koma í álitum réttarfarsnefndar og laganefndar Lögmannafélagsins, svarað, en ég væri persónulega rólegri að afgreiða frumvarpið ef ég hefði aðeins meira ráðrúm til að átta mig á þeim þáttum. Ég er ekki að biðja um að málið gangi til nefndar núna, en áskil mér rétt til að gera það hugsanlega við atkvæðagreiðslu ef nánari athugun af minni hálfu leiðir það í ljós.

Að öðru leyti fagna ég þessu máli og fagna að það er komið á þetta stig og vonast eindregið til að við náum að ljúka afgreiðslu þess sem fyrst, eða að minnsta kosti á meðan þetta þing starfar.