136. löggjafarþing — 112. fundur,  25. mars 2009.

ábyrgðarmenn.

125. mál
[01:06]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég get ekki annað en tekið undir það sem hér hefur komið fram og lýst mikilli ánægju með að þetta mál skuli vera komið út úr nefnd. Sá er hér stendur hefur flutt þetta mál átta sinnum á undanförnum 12–13 árum þannig að það er mikil ánægja að málið skuli vera komið svo langt sem raun ber vitni.

Ég vil taka undir það sem hér hefur verið sagt, einkanlega af formanni nefndarinnar og hv. þm. Pétri Blöndal, sem hefur, að því að ég man best, sennilega flutt málið með mér í öll skiptin utan eins eða tveggja á þessum 12–13 árum. Þannig að hann hefur verið öflugur og góður liðsmaður í því að koma málinu áfram.

Í mínum huga hefur íslenska ábyrgðarmannakerfið verið allt að því krabbamein í íslensku viðskiptalífi, ef svo má að orði komast. Þótt það megi kannski kalla öfugmæli held ég að ábyrgðarmannakerfið sem slíkt hafi í reynd dregið úr ábyrgð í íslensku viðskiptalífi, þ.e. það hefur dregið úr ábyrgð þeirra sem raunverulega hafa átt viðskipti og raunverulega gert samninga sín í millum. Þeir hafa ekki þurft að bera fulla ábyrgð á gerningi sínum heldur treyst því að þriðji aðili úti í bæ tryggði að efndir gengju eftir. Eins og hefur komið fram í umræðunni er jafnvíðfeðmt og mikið notað ábyrgðarmannakerfi sennilega ekki til í veröldinni.

Árið 1996 var gerð ákveðin úttekt á þessu sem leiddi í ljós að tæplega 50% Íslendinga 18 ára og eldri voru í persónulegum ábyrgðum fyrir fjárskuldbindingum annarra. Það eitt, virðulegi forseti, segir okkur á hvaða villigötur við vorum komin í þessu. Því er það mikið framfaraskref að eftir allan þennan tíma skuli nú stefna í að Alþingi afgreiði hér frumvarp um ábyrgðarmenn sem verði að lögum.

Ég vil líka sérstaklega fagna yfirlýsingu Kaupþings í dag, þar sem því er lýst yfir að Kaupþing hafi ákveðið að falla frá því að nota ábyrgðarmannakerfið hvað varðar lánveitingar til einstaklinga, sem er mjög ánægjulegt. Það sem fylgdi yfirlýsingunni er mjög athyglisvert en þar sagði að ábyrgðarmannakerfið hafi reynst illa, skapað mikla óvild gagnvart bankanum og innheimta hafi gengið afar illa. Það dregur kannski fram í raun og veru þá galla sem á kerfinu eru.

Ég vil líka nefna það að frumvarpið sem við ræðum hér tekur einnig til Lánasjóðs íslenskra námsmanna og í athugasemdum sem fram komu hjá lánasjóðnum kemur í raun og veru fram að verði þetta að lögum sé ljóst að Lánasjóður íslenskra námsmanna þurfi að breyta vinnureglum sínum og leita nýrra leiða í útlánum sínum. Ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að við sem fjárfestum í framtíð þjóðarinnar með menntun ungs fólks hljótum að fagna því að slík fjárfesting eigi sér stað á þeirri forsendu að fólk hafi náð árangri sem gerir það að verkum að lánasjóðurinn treystir sér til að veita lán en ekki að lán séu veitt á þeirri forsendu að foreldrar eða ættingjar vilji skrifa upp á, sem líka hefur gert upp á milli fólks, því ekki er víst að allir hafi haft aðgang að fólki til að skrifa upp á til að tryggja frekari námsframvindu. Þannig að ég held að sá þáttur málsins sé ekki síst mikilvægur en eins og hér hefur komið fram hafa hv. þm. Pétur Blöndal og Álfheiður Ingadóttir farið yfir stóran hluta þessa máls og ég vil lýsa ánægju minni með það.

Mig langaði að nefna, virðulegi forseti, eitt til tvö atriði þessu til skýringar. Þegar ég samdi þetta frumvarp á sínum tíma hafði ég í huga að það væru þó undanþágur frá þessu, þ.e. annars vegar þegar einstaklingur gengst í ábyrgð fyrir eigin atvinnurekstur, ef svo má að orði komast, þ.e. þegar einstaklingur gengst í ábyrgð fyrir fyrirtæki þaðan sem hann hefur laun sín eða stærstan hluta þeirra. Í slíkum tilvikum gengst einstaklingurinn að einhverju leyti í ábyrgð fyrir sjálfan sig og hefur fulla yfirsýn yfir fyrirtækið og stöðu þess og getur metið áhættu sína út frá því að þegar um er að ræða til að mynda — ég get bara nefnt það og það hefur verið talsvert í umræðunni að hlutafélög hafa greitt mun lægri skattprósentu en einstaklingar og ýmsir hafa kannski breytt daglegri starfsemi sinni, sem þetta snýst fyrst og fremst um, og farið frá því að greiða skatta eins og einstaklingar yfir í það að taka laun og tekjur í gegnum hlutafélög og eru slík tilvik undanþegin frá frumvarpinu. Í nefndaráliti viðskiptanefndar kemur einnig fram að þessar undanþágur beri að skýra þröngt. Þær beri að skýra þannig að þær eigi við í tilvikum eins og þeim sem ég hef rakið hér og eins þegar um er að ræða ábyrgðir sem eru sérstaklega í þágu viðkomandi ábyrgðarmanns, eins og nefnt er í nefndarálitinu.

Þar er tekið dæmi um að lán sé tekið þar sem viðkomandi gengst í ábyrgð, en fjármunirnir eru í reynd notaðir til að kaupa íbúð fyrir viðkomandi ábyrgðarmann. Í slíkum tilvikum, virðulegi forseti, er eðlilegt að slíkar lánveitingar séu undanþegnar. En lykilatriðið er að slíkar undanþágur ber að skýra mjög þröngt og fyrst og fremst í þeim tilvikum þar sem viðkomandi ábyrgðarmaður þiggur annars vegar laun frá því félagi sem hann gengst í ábyrgð fyrir, kannski meginhluta tekna sinna, og hins vegar að hann hafi sérstakan fjárhagslegan hag af því að gangast í slíka ábyrgð.

Ég tel, virðulegi forseti, að ég þurfi ekki að hafa langt mál um þetta en vil þó nefna vegna ræðu hv. þm. Birgis Ármannssonar, sem hafði sérstakar athugasemdir við 8. gr. frumvarpsins og athugasemdir Lögmannafélagsins og réttarfarsnefndar sem lutu til að mynda að því hvað gerðist í tilvikum þar sem aðför væri gerð og í reynd væri um að ræða árangursleysi, að sú regla sem hér er vísað til gerir ráð fyrir því að ekki verði gerð aðför eða fjárnám í heimili ábyrgðarmanns. Þá er spurt: Þegar gerð er árangurslaus aðför hvort það þýði að hægt sé að krefjast gjaldþrotaskipta á grundvelli slíkrar niðurstöðu. Svarið er augljóslega nei, því aðförin er árangurslaus sökum þess að óheimilt er að gera aðför í viðkomandi eign. Þar af leiðandi er ekki um að ræða eignaleysi og gjaldþrotalögin gera ekki ráð fyrir því að eignamenn verði teknir til gjaldþrotaskipta.

Þannig að þó að fjárnámið verði árangurslaust vegna þess að óheimilt er að gera fjárnám þá stendur það ekki undir því að hægt sé að gera kröfu um gjaldþrotaskipti. Mjög mikilvægt er að þetta liggi fyrir enda staðreyndin sú að í slíkum tilvikum er ekki um það að ræða að um eignaleysi sé um að ræða og því fráleitt að gera ráð fyrir því að slík aðför leiði til þess að hægt sé að gera kröfu um gjaldþrotaskipti.

Þetta var kannski það atriði sem mest var rætt og mest um deilt í meðförum nefndarinnar en ég tel að þetta atriði eigi ekki að vera þannig eða hafa nokkur áhrif á að það sé hægt að afgreiða þetta mál frá þinginu.

Að þessum orðum sögðum vil ég þakka nefndarmönnum í viðskiptanefnd fyrir vel unnin störf. Ég vil þakka formanni nefndarinnar sérstaklega fyrir það hversu vel hún keyrði þetta mál áfram. Ég tel, virðulegi forseti, að hér sé verið að brjóta í blað. Hér er verið að afgreiða stórt þingmannamál, heildarlög, og ég reyndar man ekki eftir að heildarlög af þeirri stærðargráðu sem hér um ræðir hafi verið afgreidd að minnsta kosti ekki frá því að ég kom til þings. Ég tel einnig, þótt ég yfirgefi þennan vettvang fljótlega, að mjög mikilvægt sé að þróunin í framtíðinni verði sú að þingið fari að semja og samþykkja sín lög og taka löggjafarvaldið meira til sín. Því það er ein meginforsendan fyrir því að þingið öðlist þá virðingu og þá reisn sem því ber að hafa.

Því miður, og það þarf svo sem ekkert að hafa um það mörg orð því það er þekkt að um það bil 97–98% ef ekki meira af þeim málum sem eru afgreidd í þinginu eiga rót sína að rekja til ráðuneyta og ráðherra. En mjög mikilvægt er að þingið fari að taka til sín þetta vald og öðlast sjálfstraust til að treysta sér til að afgreiða mál. Hér er þingið að afgreiða stórt mál, mjög stórt mál, sem skiptir heimilin miklu máli. Ekki þarf að hafa mörg orð um það hvílíkar hörmungar hafa nú riðið yfir heimilin vegna þess kerfis sem hér er. Hv. þm. Pétur Blöndal nefndi örfá dæmi, en slík dæmi eru mýmörg og ekki ástæða til að rekja þau hér. En ég vil enn og aftur, virðulegi forseti, lýsa ánægju minni með að þetta mál skuli vera komið svona langt og ég vonast til að það verði að lögum strax á næstu dögum.