136. löggjafarþing — 112. fundur,  25. mars 2009.

skaðabótalög.

438. mál
[01:33]
Horfa

Frsm. allshn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður verði að eiga við félaga sína í Sjálfstæðisflokknum hvað varðar tímasetningu þessarar umræðu. Hér hefur mikil umræða farið fram í kvöld um kannski aðeins síður mikilfengleg mál en þetta, en ég held að okkur sé ekkert að vanbúnaði að ræða þetta mál hér. Við höfum vitað að það væri hér á dagskrá frá því að tekin var ákvörðun um framgang þingfunda upp úr hádegi í dag.

Ég tel að undirbúningur málsins hafi verið mjög vandaður. Þetta mál kom fyrst fyrir allsherjarnefnd á árinu 2005 og fékk þá ítarlega umfjöllun og ítarlegar umsagnir og aftur á árinu 2006. Frá þeim tíma liggja fyrir mjög vandaðar umsagnir og greinargerðir og það var ákvörðun nefndarinnar nú að gera ekki frekari kröfur um umsagnir á þessu stigi en kalla fyrir nefndina helstu aðila, fulltrúa tryggingafélaga, prófessor í tryggingarétti og þá lögmenn sem útfærðu hugmyndir að þessum breytingum. Fyrir lá greining á vandanum, greining á afleiðingunum. Fyrir lá tryggingastærðfræðileg úttekt frá fyrri umsögnum og í ljósi þeirra gagna var það sameiginlegt mat nefndarmanna allra að ekki væri ástæða til að kalla eftir frekari umsögnum.

Það er vissulega ljóst að alltaf koma upp einhver markatilvik við löggjöf sem þessa en það mikla óréttlæti sem leiðir af óbreyttri löggjöf var að áliti nefndarinnar talið réttlæta það að taka á þessu máli sérstaklega (Forseti hringir.) þótt ekki væri um heildarendurskoðun að ræða á skaðabótalöggjöfinni.