136. löggjafarþing — 112. fundur,  25. mars 2009.

skaðabótalög.

438. mál
[01:42]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er dálítið leiðigjarnt að sitja undir því að menn séu í málþófi. Við erum með mjög langa dagskrá, það eru 26 mál á dagskrá. Ég skora á hv. þingmann að benda á þann stað í ræðum mínum í kvöld og í allan dag þar sem um málþóf er að ræða. Ég legg málþóf ekki í vana minn og er á móti því. Hins vegar erum við að ræða hér mjög þung og mikil mál. Það getur vel verið að hv. þingmaður leggi ekki mikið á sig og þyki það ekki merkilegt, en ég hef t.d. rætt um niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar sem ég líkti við sovétkerfi. Ég hef mikla skoðun á því máli, herra forseti. Ég má hafa þær skoðanir og tjá þær ef ég tel að niðurgreiðslan sé mjög skaðleg fyrir íslenskt atvinnulíf og þjóðlíf.