136. löggjafarþing — 112. fundur,  25. mars 2009.

skaðabótalög.

438. mál
[01:46]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mér fannst hv. þm. Lúðvík Bergvinsson vísa til mín þegar hann talaði um að menn hafi sagt og bent á það í upphafi fundar að hér væru fá mál. Það er ekki rétt, ég sagði að það væru fá mál sem vörðuðu hag heimilanna og fyrirtækjanna í landinu. Brýnustu málin sem þjóðin bíður eftir aðgerðum með eru fjögur á dagskránni. Ég get ekki séð að veiting ríkisborgararéttar skipti heimilin í landinu stóru máli eða velti þar þungu hlassi eða fjöldamörg önnur mál sem við höfum rætt, en þau geta verið jafnerfið og viðamikil fyrir því eins og niðurgreiðsla húshitunarkostnaðar og annað slíkt. En það er ekki eitthvað sem veltir hlassi varðandi stöðu heimilanna og fyrirtækjanna í landinu. Það var það sem ég kvartaði undan, herra forseti, að það koma engin mál frá þessari ríkisstjórn. Hún afkastar bara ekki neinu, það er vandinn. Það er það sem fólkið í landinu bíður eftir. Ég er alveg til í að tala mikið um þau mál sem skipta þjóðina máli en mörg þeirra mála sem við ræðum hér í dag velta ekki þungu hlassi þar.