136. löggjafarþing — 113. fundur,  25. mars 2009.

afgreiðsla mála fyrir þinglok.

[13:41]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um það að við eigum að einhenda okkur í brýn mál og afgreiða þau á þingi, mál sem snerta heimilin og fyrirtækin í landinu. En það er ekki sama mat hjá hv. þingmanni, og þá væntanlega Sjálfstæðisflokknum, og stjórnarflokkunum á því hvað eru brýn mál. Við teljum lýðræðisumbætur, sem við leggjum mikla áherslu á, þ.e. breytingu á stjórnarskránni, brýnt mál sem mikilvægt sé að afgreiða á þessu þingi. Það á ekki að vera neitt nýtt fyrir hv. þingmanni vegna þess að við höfum lagt áherslu á það frá upphafi, og það kemur fram í verkáætlun okkar, að fá þau mál afgreidd sem snerta stjórnlagaþingið, sem snerta auðlindirnar, sem snerta aðferðir við að breyta stjórnarskránni og þjóðaratkvæðagreiðslu.

Enn er þetta allt undir hjá okkur og þó að aðgerðir fyrir heimilin og atvinnulífið séu brýnastar og beri að leggja áherslu á að hraða þeim vel í gegnum þingið þá eru lýðræðisumbæturnar í okkar augum ekki síst mikilvægar fyrir lýðræðið í landinu.