136. löggjafarþing — 113. fundur,  25. mars 2009.

ASÍ.

[13:43]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil inna hæstv. félagsmálaráðherra eftir því hvort hún telji að ASÍ sé að brjóta vinnumarkaðslöggjöfina og hvort ASÍ sé að brjóta jafnræði milli fólks, milli starfsmanna sinna. Ég spyr vegna þess að Vigdísi Hauksdóttur lögfræðingi, sem er í 1. sæti Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður og er lögfræðingur hjá ASÍ, var neitað um launalaust leyfi fram yfir kosningar og var gert að hætta störfum hjá ASÍ. Á sama tíma er Magnús Norðdahl, yfirlögfræðingur hjá ASÍ, í 6. sæti Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi. (KJúl: Það er ekki búið að samþykkja neinn lista …) Síðan segir í fjölmiðli að Gylfi Arnbjörnsson, formaður ASÍ, segi að venjan sé að gefa fólki frí til að taka þátt í prófkjöri en þegar fólk sé komið í nokkuð öruggt þingsæti hafi meginreglan verið að veru þess ljúki hjá ASÍ.

Nú er mjög erfitt að kveða upp úr um það hvort einhver sæti eru örugg þingsæti eða ekki en a.m.k. er alveg ljóst að miðað við lög um stéttarfélög og vinnudeilur er atvinnurekendum óheimilt að reyna að hafa áhrif á stjórnmálaskoðanir síns fólks og afskipti þess af stjórnmálafélögum, m.a. með uppsögn eða hótunum um uppsögn.

Ég sé ekki annað, virðulegi forseti, en að hér hafi ASÍ neitað Vigdísi Hauksdóttur framsóknarkonu um launalaust leyfi vegna stjórnmálaafskipta en veitt Magnúsi Norðdahl, lögfræðingi ASÍ, launalaust leyfi vegna stjórnmálaskoðana. Ég vil inna hæstv. félagsmálaráðherra, sem fer með málefni verkalýðsfélaga, eftir því hvort ASÍ er að brjóta lög um vinnumarkaðinn og hvort ASÍ er að brjóta jafnræði meðal fólks. (Forseti hringir.) Eins og þetta mál er vaxið verð ég að segja, virðulegur forseti, að það lyktar (Forseti hringir.) af pólitískum nornaveiðum og þess vegna vil ég gjarnan fá upplýsingar hjá (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra um þetta mál.