136. löggjafarþing — 113. fundur,  25. mars 2009.

losunarheimildir á koltvísýringi í flugi.

[13:50]
Horfa

umhverfisráðherra (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem kom fram í máli hv. þm. Arnbjargar Sveinsdóttur að við Íslendingar förum á næstunni undir þetta losunarbókhald Evrópusambandsins hvað varðar flugið. Unnið er í því hvernig það verður útfært. Meðal þess sem er til skoðunar eru möguleikar á undanþágum frá innanlandsfluginu, þ.e. hvernig þetta verður aðlagað í þrepum því að þetta hellist auðvitað ekki allt yfir á einum degi.

Það er líka verið að kanna millilandaflugið og kannski ekki síður það. Við búum við þær aðstæður að vera á eylandi og getum ekki leyst samgöngumálin með rafknúnum lestum, eins og nágrannalönd okkar geta gert. Núna er verið að skoða á hvern hátt þessi sérstaða Íslands, Færeyja og Grænlands kemur út í heildarsamhenginu. Engar niðurstöður hafa náðst í þeim viðræðum, þær eru til skoðunar en ég fullvissa hv. þingmann um að hagsmuna Íslands verður að sjálfsögðu gætt í hvívetna í þeim viðræðum.