136. löggjafarþing — 113. fundur,  25. mars 2009.

vinnuhópur um eftirlitshlutverk þingsins o.fl.

[13:54]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S):

Hæstv. forseti. Eins og þingheimi er kunnugt skipaði forsætisnefnd á síðasta ári sérstakan vinnuhóp til að fara yfir ákvæði er varða eftirlitshlutverk þingsins, þar á meðal og sérstaklega ráðherraábyrgð. Skipuð var nefnd undir forustu Bryndísar Hlöðversdóttur, aðstoðarrektors á Bifröst, en með henni í nefndinni eru Andri Árnason hæstaréttarlögmaður og Ragnhildur Helgadóttir prófessor. Þetta ágæta fólk hefur unnið hörðum höndum að því að stilla upp tillögum og skýrslu sem forsætisnefnd og þinginu hefði verið fært og í framhaldinu var gert ráð fyrir að vinna að breytingum á lögum.

Nú bárust fréttir um það í gær að forsætisráðherra hafi skrifað forseta Alþingis og gert kröfu um að þessi nefnd tæki til meðferðar mál sem henni var falið í fyrra með bréfi forsætisnefndar. Framkvæmdarvaldið er með öðrum orðum að hlutast til um verkefni sem unnið er af miklum heilindum og fullri alvöru á vettvangi forsætisnefndar.

Þess vegna spyr ég: Hvað er hér á ferðinni? Er þess að vænta að á vegum ríkisstjórnarinnar komi fram annað frumvarp um breytingar á stjórnarskránni? Er þess að vænta að við fáum tillögur sem ríkisstjórnin hefur unnið og undirbúið við hlið þeirrar nefndar sem vinnur núna á vettvangi Alþingis?