136. löggjafarþing — 113. fundur,  25. mars 2009.

vinnuhópur um eftirlitshlutverk þingsins o.fl.

[13:57]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S):

Hæstv. forseti. Það kann að vera að það sé á verkáætlun ríkisstjórnarinnar að breyta stjórnarskránni en til þess þarf ýmislegt að gerast. Til að upplýsa hæstv. forsætisráðherra get ég vitnað hér í ágæta blaðagrein sem formaður vinnuhópsins skrifaði 4. mars í Fréttablaðið þar sem segir, með leyfi forseta:

„Vinnuhópnum er meðal annars ætlað að skoða ákvæði stjórnarskrárinnar sem lúta að eftirlitshlutverki þingsins, ákvæði þingskapa, lög um ráðherraábyrgð og landsdóm …“

Það fer ekkert á milli mála að forsætisnefndin fól nefndinni að skoða þá hluti sem ríkisstjórnin kemur nú fram með og ætlast til að hún taki fram fyrir hendurnar á forseta Alþingis og forsætisnefnd. Hvað er eiginlega að gerast hér?