136. löggjafarþing — 113. fundur,  25. mars 2009.

barnabætur.

[14:02]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrir stuttu síðan var akkúrat þetta mál, sem hv. þingmaður tekur hér upp, rætt á fundi í fyrirspurnatíma og þessari fyrirspurn var beint til fjármálaráðherra og eftir því sem ég best heyrði var hæstv. ráðherra fjármála að skoða þetta mál. En það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að þetta mál á sér tvær hliðar. Sá sem fær þetta greitt fjórum sinnum á ári, og þá þrjá mánuði væntanlega í einu, getur ávaxtað peningana á þeim tíma ef hann þarf ekki að nýta þá en ef hann þarf að nýta þá reglulega, sem flestir þurfa að gera, geta greiðslur á hverjum mánuði verið heppilegri. En ég held ekki að þetta breyti mjög miklu fyrir barnafjölskyldur. Ég held að þarna hafi fyrst og fremst verið spurning um hvort fólk hefði val um hvort það tæki barnabæturnar út mánaðarlega eða fjórum sinnum á ári eins og er í lögum.

Hv. þingmaður veit að ekki verður farið mikið út í það að auka barnabætur á þeim stutta tíma sem eftir lifir af þessu þingi. Við höfum farið út í ýmsar aðgerðir sem skipta máli fyrir unga fólkið í landinu, ekki síst aðgerðir sem skipta máli fyrir húsnæðislán ungs fólks. Við höfum líka farið í mál sem skiptir ekki síst máli fyrir ungt fólk með miklar skuldir sem er aukning á vaxtabótum. Við hækkum þær um 25% og það þýðir að hjá hjónum með árstekjur á bilinu 3–8 millj. hækka vaxtabætur um 170 þús. kr. og það er ekkert smátt, þegar það verður gert. En hv. þingmaður er alltaf á hálum ís þegar hann talar um barnabætur vegna þess að þær voru skertar í tíð Framsóknarflokksins á tímum mikillar uppsveiflu og góðæris í samfélaginu, (Gripið fram í.) þannig að hv. þingmaður er á hálum ís þegar hann minnist á barnabætur.