136. löggjafarþing — 113. fundur,  25. mars 2009.

barnabætur.

[14:04]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Mér þykir það miður að heyra málflutning hæstv. forsætisráðherra í þessum efnum, þegar margar barnafjölskyldur í landinu horfa fram á gríðarlega erfiðleika í rekstri heimila sinna. Það eina sem hæstv. forsætisráðherra hefur fram að færa er einhver upprifjun á sögunni. Mér finnst vanta skýra framtíðarsýn og hæstv. ráðherra svaraði ekki mjög einfaldri spurningu áðan um þær væntingar sem ríkisstjórn sem hún sat í áður gaf barnafólki í landinu. Það á ekki að gera neinar breytingar á barnabótakerfinu barnafólki til hagsbóta. Það liggur fyrir.

Hæstv. forsætisráðherra má rifja upp gamlar sögur en það sem ég kom upp til að ræða við hæstv. forsætisráðherra um er framtíðin. Hvaða framtíðarsýn hefur hæstv. forsætisráðherra gagnvart barnafólki í landinu? Ætlar hæstv. ráðherra að beita sér fyrir breytingum á þessu kerfi til hagsbóta fyrir barnafjölskyldur í landinu eða á að viðhalda óbreyttu kerfi, eins og hæstv. ráðherra hefur boðað? Ég hef staðið í þeirri trú að menn hafi ætlað að koma til móts við skuldsett heimili, sérstaklega barnafólkið í landinu. Þess vegna eru svör hæstv. forsætisráðherra mér mikil vonbrigði, það eru mikil vonbrigði að heyra þetta hér. Hæstv. forsætisráðherra getur komið hér aftur (Forseti hringir.) upp í söguupprifjun en það mun ekki gleðja fjölskyldufólk í landinu, því miður.