136. löggjafarþing — 113. fundur,  25. mars 2009.

fæðingar í Vestmannaeyjum.

441. mál
[14:08]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil beina fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra og varðar hún fæðingarþjónustu í Vestmannaeyjum. Nýverið var lagt til af hálfu forsvarsmanna Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja að loka skurðstofunni á Heilbrigðisstofnuninni um sex vikna skeið í sumar í sparnaðarskyni til að mæta kröfum um niðurskurð. Áætlað er að í kringum 10 millj. kr. sparist við þessa aðgerð en stofnuninni er gert að hagræða um í kringum 70 millj. kr. á fjárlögum þessa árs.

Ég geri ekki lítið úr því risavaxna verkefni sem niðurskurður á kostnaði ríkisins til heilbrigðismála er og veit að hæstv. heilbrigðisráðherra er ekki öfundsverður af því verkefni. En alltaf er þetta spurning um forgangsröðun og að öryggi notenda heilbrigðisþjónustunnar sé ævinlega tryggt.

Ég vil því sérstaklega spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra um það hvernig heilbrigðisyfirvöld hyggjast tryggja öryggi fæðandi kvenna í Vestmannaeyjum á umræddu tímabili. Einnig vil ég spyrja hæstv. ráðherra um hversu margar fæðingar séu áætlaðar á tímabilinu.

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um landfræðilega sérstöðu Vestmannaeyja hvað samgöngumál varðar. Hún er öllum kunn. Kona í barnsnauð er ekki líkleg til að hafa tíma til að skipuleggja sjóferð með Herjólfi með nægum fyrirvara og jafnvel um hásumar er heldur engin trygging fyrir því að alltaf sé hægt að fljúga til og frá Vestmannaeyjum, eins og dæmin sanna. Með lauslegri athugun á tölum um flug í júní og júlí á árunum 2000–2007 má gera ráð fyrir því að ófært sé með flugi að meðaltali 2–4 heila daga í mánuði auk þeirra daga sem ófært er hluta úr degi. Ég tek fram að þetta eru meðaltalstölur og ályktanir mínar, en ekki mjög vísindalega reiknað.

En það er ekki hægt að fullvissa fæðandi konur í Vestmannaeyjum um að ævinlega verði hægt að koma þeim undir læknishendur á umræddu tímabili og því vandséð hvernig öryggi þeirra verður tryggt. Lokun skurðstofunnar þýðir því í raun að fæðingarþjónustan leggst af í Eyjum á þessu tímabili og í raun á mun lengra tímabili þar sem náttúran er nú einu sinni þannig að ekki er hægt að dag- eða tímasetja barnsfæðingar með fullkominni nákvæmni. Þetta hefur í för með sér að tilvonandi foreldrar þurfa að fara með nægum fyrirvara upp á land til að vera nálægt þjónustunni með öllu því raski fyrir fjölskyldur, kostnaði og vinnutapi sem því fylgir. Eyjamenn hafa ekkert val í þessu sambandi því samgöngurnar eru einfaldlega þannig að ekki er alltaf hægt að tryggja þær vegna náttúrulegra aðstæðna. Það þarf því mikla dirfsku að taka þá ákvörðun að loka skurðstofunni og bera þá ábyrgð sem í þeirri ákvörðun felst. Ég fagna því að hæstv. heilbrigðisráðherra tilkynnti í gær um að fæðingarþjónusta á Suðurnesjum og á Suðurlandi verði áfram tryggð óbreytt og það eru góðar fréttir. Í ljósi sérstöðu Vestmannaeyinga hljóta þeir að gera sömu kröfu til hæstv. ráðherra og fara fram á það að lokun skurðstofunnar í Eyjum verði dregin til baka. Ég skora því á hæstv. ráðherra að leita leiða til að ná viðlíka samkomulagi í Vestmannaeyjum þannig að öryggi íbúanna verði áfram tryggt.

Þess má geta að þetta er alls ekki í fyrsta sinn sem lokun skurðstofunnar í Eyjum hefur verið lögð til sem sparnaðaraðgerð (Forseti hringir.) og það hefur ætíð þurft mikla baráttu Eyjamanna í þessu samhengi. Það hefur áður gerst í þessum ræðustól að heilbrigðisráðherra hefur afturkallað slíka sparnaðaraðgerð. Ég minni á að Jón Kristjánsson, þáverandi heilbrigðisráðherra, (Forseti hringir.) dró slíka aðgerð til baka og ég skora á hæstv. heilbrigðisráðherra að íhuga að gera slíkt hið sama.