136. löggjafarþing — 113. fundur,  25. mars 2009.

fæðingar í Vestmannaeyjum.

441. mál
[14:11]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ragnheiði E. Árnadóttur fyrir fyrirspurnir sínar um fæðingar í Vestmannaeyjum. Ég er sammála mörgu í málflutningi hv. þingmanns og þá ekki síst því að þegar gripið er til sparnaðaraðgerða í heilbrigðiskerfinu eigi að forðast allt sem teflir öryggi fólks í tvísýnu og það á ekki síst við um barnshafandi konur.

En það er rétt sem fram kom að stjórnendur Heilbrigðisstofnunarinnar í Vestmannaeyjum hafa í hyggju að draga saman starfsemi skurðstofunnar í sumar og hv. þingmaður spyr hvernig heilbrigðisyfirvöld hyggist tryggja öryggi fæðandi kvenna í Eyjum á meðan sex vikna sumarlokun skurðstofunnar þar stendur yfir.

Ég var nýlega á ferð í Vestmannaeyjum og ræddi við starfsfólk og stjórnendur Heilbrigðisstofnunarinnar í Vestmannaeyjum og þar var mér tjáð að þessi ákvörðun hefði verið tekin. Hún var ígrunduð og byggir ekki á dirfsku heldur yfirvegun og ég treysti stjórnendum og starfsfólki til að taka yfirvegaða ákvörðun af þessu tagi án þess að tefla öryggi fólks í tvísýnu.

Það er spurt hversu margar fæðingar séu áætlaðar í Vestmannaeyjum. Á tímabilinu sem um ræðir er áætlað að fimm fæðingar geti átt sér stað. Sú áætlun byggist bæði á því sem vitað er úr mæðraeftirliti í Vestmannaeyjum en einnig er fjöldinn mjög nálægt meðaltali fæðinga sem reikna má með á sex vikna tímabili miðað fjölda á ári undanfarin ár. Öryggi þeirra kvenna sem munu fæða þessar sex vikur mun ekki síst byggjast á góðri mæðravernd sem rekin hefur verið í Vestmannaeyjum um áratugaskeið þannig að engin þekkt áhætta verði tekin ef konan velur að fæða í Vestmannaeyjum þrátt fyrir lokaða skurðstofu. Ég legg áherslu á að þótt skurðstofa sé ekki aðgengileg er ekki þar með sagt að engin fæðing geti átt sér stað. Ég vísa t.d. til stórra svæða á norðausturhorni og suðausturhorni landsins í því efni. Hins vegar gildir öðru máli ef um áhættu er að ræða og ef til þess kemur að flytja þarf konu á aðra heilbrigðisstofnun t.d. Landspítalann mun öruggt sjúkraflug vera tryggt. Þar er bæði um að velja hið hefðbundna sjúkraflug sem staðsett er í Vestmannaeyjum, sem og aðgengi að björgunarþyrlum Landhelgisgæslunnar. Í þessu samhengi er rétt að hafa í huga að um er að ræða hásumartímann þar sem erfiðleikar í samgöngum ættu að vera í algjöru lágmarki miðað við þessa flutningsmöguleika. Þá má einnig minna á að víða um land fæða konur án þess að þar séu fullmannaðar skurðstofur, eins og ég gat um áður. Enn og aftur stendur þetta og fellur með öflugri mæðravernd þar sem leit fer fram að áhættuþáttum og konum er beint í réttan farveg.