136. löggjafarþing — 113. fundur,  25. mars 2009.

fæðingar í Vestmannaeyjum.

441. mál
[14:17]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil fagna því sem fram hefur komið í máli hæstv. heilbrigðisráðherra að reynt verði að tryggja eins og hægt er allt öryggi varðandi fæðingar í Vestmannaeyjum. Ég fagna því líka sem fram kom í fjölmiðlum í gær að það á að reyna að verja stöðu fæðandi kvenna á Suðurlandi. Þar voru tilgreindir staðir — ég vil nefna hér sérstaklega Selfoss, ég sá að hæstv. ráðherra var á fundi þar og á Suðurnesjunum. Það er mikilvægt að við gerum allt sem við getum til þess að tryggja öryggi fæðandi kvenna.

Á sama tíma vitum við að það þarf að hagræða í heilbrigðiskerfinu. Á næstu árum verður krafan um tugmilljarða króna hagræðingu í íslensku samfélagi og að sjálfsögðu þarf að líta þar til allra möguleika, þar á meðal innan heilbrigðiskerfisins. Það er mjög eðlilegt að við reynum að finna leiðir til þess að gera það þannig að öryggi verði samt tryggt sem best og því kaus ég nú fyrir stuttu að koma fram með þær hugmyndir að setja upp svokallað tilvísunarkerfi í heilbrigðisþjónustunni (Forseti hringir.) valfrjálst, og það eru örugglega fleiri leiðir sem má nota til að spara, en ég tel að hæstv. heilbrigðisráðherra sé alla vega á réttri leið með þessi mál.