136. löggjafarþing — 113. fundur,  25. mars 2009.

notkun lyfsins Tysabri.

442. mál
[14:34]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það var 29. nóvember 2007 sem varaþingmaður Framsóknarflokksins, Jón Björn Hákonarson, spurði fyrst um notkun lyfsins Tysabri. Hann spurði á þeim tíma hvort það stæði til að hefja notkun á lyfinu hér á landi og ef svo væri hvenær.

Það var svo í janúar 2008 að við hófum að gefa þetta lyf. Það er alveg rétt sem hér hefur komið fram að lyfið gagnast mörgum. En það hentar alls ekki öllum. Ég hef aldrei orðið vör við neitt annað en að það hafi verið notað á faglegum forsendum.

Þess vegna fannst mér mjög sérstakt þegar hv. þm. Ásta Möller fór fram í fjölmiðlum og ýjaði að því að lyfið væri gefið á grundvelli annars en faglegs mats, þ.e. að þeir sem væru betur menntaðir fengju frekar lyfið. En ég heyri að hv. þingmaður fer talsvert varlegar hér í ræðustóli núna.

Ég held að það sé mjög (Forseti hringir.) mikilvægt að grafa ekki undan heilbrigðiskerfinu með vangaveltum af þessu tagi. Ég get eiginlega fullvissað þingheim um (Forseti hringir.) að það er verið að taka ákvarðanir út frá faglegum forsendum varðandi þetta mál og mörg önnur heilbrigðismál og öll önnur heilbrigðismál.