136. löggjafarþing — 113. fundur,  25. mars 2009.

innsöfnun, endurnýting og endurvinnsla.

367. mál
[15:02]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég hef skilning á því að hlutirnir geta dregist af því að það er verið að koma á nýju kerfi en ég heyrði varðandi raftækin að verið væri a.m.k. að reyna að leiða aðila saman og liðka fyrir því að hægt væri að koma kerfinu á. Ég vona að það takist sem fyrst og vil gjarnan inna hæstv. ráðherra eftir því í seinna svari hvort hæstv. ráðherra sjái einhvern tímapunkt fyrir sér í því sambandi, þ.e. hvenær kerfið verði komið á ef það er hægt að nefna það.

Varðandi seinni hluta svarsins, um hjólbarðana, heyri ég að hæstv. ráðherra er sammála því að það er alls ekki ákjósanleg leið að þurfa að urða hjólbarðana. Það er léleg nýting. Auðvitað er það nýting að einhverju leyti en þetta er ekki góð nýting og þetta er undanþáguákvæði sem er verið að nýta. Það er ákjósanlegt að reyna að finna aðrar leiðir til að nýta hjólbarðana. Hæstv. ráðherra talaði um að það gæti verið dýrt að koma slíkum úrræðum í gagnið en mér er kunnugt um að það er a.m.k. vilji aðila á markaði til að koma slíkum úrræðum í gang. Þar hefur verið nefnd hráolíuframleiðsla og það er erindi um það í umhverfisráðuneytinu. Ég hvet hæstv. ráðherra til að láta skoða það erindi mjög vel og athuga hvort hægt sé að styðja eitthvað við bakið á slíkum hugmyndum. Auðvitað er ekki eðlilegt að fara út í einhverja vinnslu ef hún er ekki arðsöm. Það hafa a.m.k. verið færð rök fyrir því að svona vinnsla gæti verið arðsöm og að það mætti jafnvel nota þessa hráolíu á farartæki, það þyrfti ekki að nota hana alla til húshitunar eða brennslu í ofnum. Ég vil inna hæstv. ráðherra eftir því hvort ekki sé eðlilegt að skoða (Forseti hringir.) þetta erindi og gera allt sem í valdi ráðuneytisins stendur til að liðka fyrir því að hjólbarðarnir verði ekki urðaðir í framtíðinni.