136. löggjafarþing — 113. fundur,  25. mars 2009.

staða á íbúðamarkaði.

349. mál
[15:07]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að beina fyrirspurn til hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra. Ástæðan fyrir því að ég er með þessa fyrirspurn ætti öllum að vera ljós, við þekkjum að það er mikill vandi á húsnæðismarkaði og mikið frost á fasteignamarkaðnum. Það er mikilvægt fyrir okkur að leita allra leiða til að losa um frostið á sama hátt og það er afskaplega mikilvægt að við sjáum til þess að fólk geti greitt af lánum sínum sem eru í flestum tilfellum fasteignalán. Ég ætla að ræða þau við annan ráðherra hér á eftir.

Við erum með ýmis tæki til að fylgjast með íbúðamarkaðnum og húsnæðismarkaðnum og mín tilfinning er sú að það hafi ekki verið gert, a.m.k. ekki með nægilega áhrifaríkum hætti og ekki eins og ætti að vera, og ég held að flestum finnist það sama. Við erum í þeirri stöðu núna, virðulegi forseti, að það virðist vera mjög mikið offramboð af húsnæði og þá sérstaklega hér, á þéttbýlasta svæði landsins. Bæði á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess horfum við upp á mikið af nýbyggðu húsnæði sem er oft ekki fullklárað, og í þeirri stöðu að það er autt og að því er virðist litlar líkur á að verði keypt á næstunni og notað sem íbúðarhúsnæði.

Eins og ég nefndi er það félags- og tryggingamálaráðuneytið sem sér um húsnæðismálin. Sömuleiðis erum við með öfluga stofnun sem heitir Íbúðalánasjóður og þessar tvær stofnanir eru þeir aðilar sem ættu að hafa bestu yfirsýnina og þekkinguna á þessum málum. Það sem ég vildi kanna, virðulegi forseti, og beini þeirri fyrirspurn til hæstv. ráðherra er hvort ráðherra hafi látið kanna hvernig best sé að bæta stöðuna á íbúðamarkaði á helstu þéttbýlissvæðum landsins, t.d. með úttekt á stöðunni á íbúðamarkaði og greiningu á framtíðarhorfum.

Ég held að af svo mörgum ástæðum hljóti að vera afskaplega mikilvægt að við gerum þetta. Við þurfum eðli málsins samkvæmt að koma í veg fyrir að hér sé mikið af húsnæði sem er ekki notað af ástæðum sem þarf ekki að nefna. Við þurfum að sjá til þess að markaðurinn fari aftur af stað og við þurfum að sjá til þess að fólk geti greitt af lánum sínum og skuldbindingum. Það er augljóst í mínum huga miðað við þá stöðu sem uppi er að það hefur ekki verið gert og þess vegna spyr ég hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra, sem er í rauninni húsnæðismálaráðherra, hvort þetta hafi verið gert og ef svo er hver staðan sé á þessum málum.