136. löggjafarþing — 113. fundur,  25. mars 2009.

staða á íbúðamarkaði.

349. mál
[15:18]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það að félags- og tryggingamálaráðuneytið á að hafa yfirsýn yfir þessi mál og það er einmitt það sem Íbúðalánasjóður gerir með úttekt sinni á íbúðarhúsnæði sem ég nefndi í ræðu minni áðan. Ég geri ráð fyrir að þegar búið verður að gera allar úttektirnar — en eins og kom fram í máli mínu er ekki búið að gera úttektina á Norðurlandi — ætti að vera nokkuð þokkaleg yfirsýn yfir þessa stöðu.

Aftur á móti vil ég nefna að það er ekki hægt að kenna fyrirrennara mínum um að ekki hafi verið gripið til aðgerða. Menn hafa ekki haft yfirsýn hjá sveitarfélögunum um lóðaúthlutanir og hvað verið var að byggja upp mikið. Það er alveg ljóst að þarna skorti á samráð milli sveitarfélaganna og var byggt allt of mikið af húsnæði, eins og fram kemur í þeim tölum sem ég nefndi áðan.

Auðvitað munum við í ráðuneytinu halda áfram því starfi sem verið er að vinna þar, að koma á upplýsingakerfi um úthlutanir lóða þannig að það gagnist bæði ríki og sveitarfélögum og þeim sem eru að byggja. Ég efast ekki um að það muni koma að góðum notum en það er alveg ljóst, eins og kom fram í fyrri ræðu minni, að til er allt of mikið af húsnæði sem er ónýtt og jafnvel óselt en Íbúðalánasjóður bregst vissulega við. Það sýna þær úttektir sem ég upplýsti um og sömuleiðis þær aðgerðir sem gripið hefur verið til með því að þrengja kröfurnar um lán, sérstaklega varðandi leiguíbúðir.