136. löggjafarþing — 113. fundur,  25. mars 2009.

könnun á greiðsluaðlögun fasteignaveðlána.

400. mál
[15:24]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Frú forseti. Ég þakka fyrirspurn hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og tek undir með honum um mikilvægi þess að fundin sé lausn á vanda þess stóra hóps sem glímir nú við erfiða greiðslubyrði af fasteignalánum.

Fyrst ber að taka fram að greiðsluaðlögun heyrir undir dómsmálaráðherra og er því rétt að beina fyrirspurn um greiðsluaðlögun fasteignaveðlána til hennar. En að því er varðar frystingu fasteignaveðlána að hluta eða fullu og skiptingu lána í eingreiðslu og hefðbundin fasteignaveðlán hefur viðskiptaráðuneytið beint því til þeirra aðila sem veitt hafa lán í erlendri mynt að bjóða lántakendum upp á að frysta greiðslur af þeim þar til fundin hefur verið varanleg lausn á aukinni greiðslubyrði vegna húsnæðislána í erlendri mynt.

Þá hefur verið unnið í viðskiptaráðuneytinu að varanlegum lausnum í stað frystingar sem ætlað er að létta greiðslubyrði gengistryggðra fasteignaveðlána m.a. í samráði við Samtök fjármálafyrirtækja, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Seðlabankann. Það er ánægjulegt að geta sagt frá því að von er á tillögum frá ráðuneytinu og þessum samráðsaðilum á allra næstu dögum. Þær tillögur munu ekki fela í sér skiptingu í eingreiðslur og hefðbundin fasteignaveðlán eins og hv. þingmaður lagði til, en munu þó hafa um sumt sambærileg áhrif. Ekkert er þó því til fyrirstöðu, mér vitanlega, að lánveitendur og lántakendur semji um þá skiptingu sem hv. þingmaður leggur til, standi hugur þeirra til þess. Sú leið hefur bæði kosti og galla. Helsti gallinn að mínu mati er að hætt er við að síðar þurfi að endursemja til að gera lántaka kleift að ráða við eingreiðsluna. Í einhverjum tilfellum kann þetta þó að vera góð lausn en að mínu mati er slík skipting ekki vænleg sem almenn lausn á vanda þeirra sem nú ráða illa við mánaðarlegar afborganir.

Viðskiptaráðuneytið hefur einnig, ásamt félags- og tryggingamála- og forsætisráðuneyti, unnið að því að gera samkomulag við lánastofnanir um að þær bjóði lántakendum að beita þeim úrræðum sem Íbúðalánasjóður hefur vegna greiðsluerfiðleika lántaka húsnæðislána.