136. löggjafarþing — 113. fundur,  25. mars 2009.

könnun á greiðsluaðlögun fasteignaveðlána.

400. mál
[15:26]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég tek undir áhyggjur hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar fyrirspyrjanda varðandi stöðu íbúðareigenda og þeirra sem eru með mikil og há lán og í greiðsluerfiðleikum sem ófyrirséð er hvernig margir þeirra bjarga sér frá.

Ég vil þó vekja athygli á því hversu mikilvægt það er að við skulum hafa Íbúðalánasjóð. Íbúðalánasjóður var bitbein hjá síðustu ríkisstjórn og þeirri þar á undan líka þar sem rætt var um að leggja hann niður, selja hann og einkavæða. Hversu mikið happ var að það skyldi ekki gerast? Ég spyr hæstv. ráðherra hvort ekki sé rétt núna að afturkalla beiðnina til ESA sem síðasta ríkisstjórn og bankarnir stóðu að, um að banna Íbúðalánasjóði að starfa á þessum vettvangi. Sú beiðni held ég að standi enn.

Ég vil aðeins spyrja hæstv. ráðherra varðandi endurskoðun á vísitölugrunninum, frú forseti, (Forseti hringir.) hvað líði hugsanlegri endurskoðun á vísitölugrunninum sem verðbæturnar og verðbólgan eru byggðar á. Getur hæstv. ráðherra upplýst okkur eitthvað um það?