136. löggjafarþing — 114. fundur,  25. mars 2009.

aðför, nauðungarsala og gjaldþrotaskipti.

322. mál
[15:42]
Horfa

Jón Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Það kom mér satt að segja á óvart að þetta mál skyldi vera á dagskrá núna miðað við það sem hafði verið boðað og gert grein fyrir hvað dagskrána varðar. Þetta mál hefði þarfnast ákveðinnar umræðu en ég vil hins vegar ekki fara að taka mjög langan tíma í það vegna þess að þingmenn gerðu ráð fyrir að dagskráin væri með öðrum hætti og það liggur fyrir að við sjálfstæðismenn viljum greiða fyrir framgangi góðra mála og gerum það, höfum gert og munum gera.

Spurningin hér er hins vegar um ákveðin ákvæði þessa frumvarps, hvort hér er um gott mál að ræða eða ekki. Þá er ég fyrst og fremst að tala um 1. gr. frumvarpsins sem er um frestun eða lengingu á aðfararfresti. Það orkar mjög tvímælis hvort það sé til bóta að lengja aðfararfrestinn vegna þess að aðfararfresturinn, þ.e. að geta gert aðför, er fyrst og fremst spurningin um að ná fram ákveðnum tryggingarrétti, að kröfuhafi geti náð fram ákveðnum tryggingum. Mér finnst gæta nokkurs misskilnings hvað þetta varðar.

Ég get haft fulla samúð með því og tel raunar ákveðna nauðsyn bera til að taka fyrir það sem fjallað er um í II. kafla frumvarpsins sem er breyting á lögum um nauðungarsölu, þannig að því verði frestað að gengið verði að þeim veðum sem um er að ræða, en það hljóta allir að hafa hagsmuni af því að ná fram tryggingu fyrir þeim kröfum sem þeir eiga. Við skulum átta okkur á að það eru ekki fyrst og fremst fjármálastofnanir sem þarna koma til eða stórir kröfuhafar, þarna getur verið um það að ræða að tryggja vinnulaunakröfur fólks. Þess vegna getur verið spurning um hvort ekki sé verið að fara ranga leið með því að lengja aðfararfrestinn.

Að öðru leyti er ég sammála því nefndaráliti sem kemur frá allsherjarnefnd en vegna þeirra athugasemda sem ég hef sett hér fram mun ég greiða frumvarpinu atkvæði en fer fram á að málið verði kallað aftur til nefndar milli 2. og 3. umr.