136. löggjafarþing — 115. fundur,  25. mars 2009.

ábyrgðarmenn.

125. mál
[16:08]
Horfa

Jón Magnússon (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er mikið fagnaðarefni að þetta frumvarp skuli nú koma til efnislegrar afgreiðslu við 2. umr. Ég vil taka undir með þeim sem hér hafa verið með atkvæðaskýringu og þakka hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni fyrir þá þrautseigju sem hann hefur sýnt með því að standa að þessu mikla baráttumáli neytenda í meira en áratug, til þess að við fengjum svipaða skipan lánamála og gerist í okkar heimshluta. Ábyrgðarmannakerfið eins og það hefur viðgengist í þjóðfélagi okkar er séríslenskt fyrirbrigði. Með því frumvarpi sem hér er verið að ganga til atkvæða um er verið að koma svipaðri skipan á og gildir hjá nágrannaþjóðum okkar. Með þeim reglum sem vonandi verða samþykktar á eftir er verið að koma skipan lánamála í mun eðlilegra horf en verið hefur. Ég fagna því að frumvarpið skuli vera komið til efnislegrar afgreiðslu.