136. löggjafarþing — 115. fundur,  25. mars 2009.

ábyrgðarmenn.

125. mál
[16:09]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það er gleðilegur atburður sem nú á sér stað í sölum Alþingis, að við skulum loks ætla að afnema það ábyrgðarmannakerfi sem hefur viðgengist hér á landi síðustu ár. Ég vil sérstaklega hrósa flutningsmönnum frumvarpsins, hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni, sem og öðrum þingmönnum sem hafa komið að þessu. Ég vil benda sérstaklega á að fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, Guðni Ágústsson, er meðflutningsmaður að þessu máli. Við framsóknarmenn styðjum þetta eindregið. Á erfiðum tímum er oft hægt að gera stórar breytingar og með því að samþykkja það frumvarp sem hér um ræðir erum við að afnema séríslenskt fyrirbrigði. Vonandi verður þetta til þess að auka réttlæti, að íslenskt fjármálakerfi verði réttlátara gagnvart viðskiptamönnum. Við framsóknarmenn leggjum eindregið til að þetta verði samþykkt á vettvangi þingsins og styðjum málið heils hugar.