136. löggjafarþing — 116. fundur,  25. mars 2009.

listamannalaun.

406. mál
[19:42]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta menntmn. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá 2. minni hluta menntamálanefndar um frumvarp til laga um listamannalaun.

Farið hefur verið yfir efnisatriði frumvarpsins en þar er lagt til að fjölga mánaðarlaunum sem er úthlutað sem starfslaunum úr 1.200 í 1.600 eða um 400 mánaðarlaun.

Þá er og lögð til sú breyting að mánaðarlaun starfslauna verði ákveðin upphæð, 266.737 kr., sem komi til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga hvert ár með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir tveimur nýjum launasjóðum, fyrir sviðslistafólk og hönnuði, þá er og lagt til að stjórn listamannalauna fái heimild til að flytja umsóknir á milli launasjóða og lagðar til breytingar á störfum stjórnarinnar, m.a. varðandi stefnumótun og áherslur við úthlutun.

Helsta ákvæðið sem hefur áhrif á útgjöld ríkisins er fjölgun mánaðarlauna um 400 og miðað við að fyrirhuguð mánaðarlaun verði eins og áður sagði 266.737 kr. þýðir það 107 millj. kr. aukningu á útgjöldum ríkisins. Einnig er talið að útgjöld ríkisins gætu aukist vegna aukinnar umsýslu vegna fjölgunar mánaðarlauna og vinnu við stefnumörkun þó að taka beri fram að sú upphæð er örugglega ekki mjög há.

Ekki er gert ráð fyrir þessum auknu útgjöldum í fjárlögum ársins 2009, þ.e. á yfirstandandi ári, né í áætluðum útgjöldum næstu fjögur árin. Því þarf vegna mikils halla ríkissjóðs að fjármagna útgjöldin með lántökum.

Annar minni hluti fellst ekki á að það sé raunhæf leið til atvinnu- og verðmætasköpunar að auka útgjöld ríkisins með þessum hætti.

Annar minni hluti leggur til að ekki verði hróflað við núgildandi lögum um listamannalaun.

Ég vil aðeins árétta í þessu sambandi að 2. minni hluti er ekki í sjálfu sér að mæla gegn því að gera ýmsar þær breytingar sem í frumvarpinu felast eins og t.d. að opna möguleika fyrir sviðslistafólk og hönnuði né heldur er verið að leggjast gegn þeim hugmyndum sem settar eru fram í frumvarpinu að stjórn listamannalauna fái heimild til að flytja umsóknir á milli launasjóða eða lagðar séu til breytingar á störfum stjórnarinnar o.s.frv. Það sem við teljum hins vegar mjög gagnrýnisvert er hvernig að þessum málum er staðið. Verið er að leggja fram hugmyndir sem fela í sér talsverða aukningu á útgjöldum ríkisins í því skyni að búa til störf með þeim hætti sem hérna er verið að leggja til. Það á að fjármagna með dýrum lánum og opinberum lántökum til að standa straum af þeirri sérstöku atvinnusköpun að fjölga listamönnum á launaskrá ríkisins. Þetta er auðvitað algerlega ábyrgðarlaus stefna. Þetta er stefnumótun inn í framtíðina á sama tíma og verið er að tala um að fram undan sé mjög erfið fjárlagagerð. Hæstv. fjármálaráðherra opnar ekki svo munninn, hvort sem það er úr þessum ræðustóli eða öðrum, nema kveinka sér undan því ábyrgðarmikla starfi sem hann hefur tekist á hendur sem er að ná saman jöfnuði í ríkisfjármálum.

Í morgun sat ég fund í Viðskiptaráði þar sem hann hafði yfir eina af sínum grátræðum þar sem hann kveinkaði sér undan þessu verkefni sínu. Hér er hins vegar verið að vinna þvert gegn því risavaxna verkefni hæstv. fjármálaráðherra sem er að reyna að ná jöfnuði í ríkisfjármálum. Þó að þetta séu ekki hinar stóru tölur sem velta um ríkisfjármálunum eða fjárlagagerðinni þá er þetta stefnumótun í þá átt miðað við mjög sérstakar aðstæður þar sem verið er að leggja til auknar lántökur til atvinnusköpunar eins og hér er gert ráð fyrir.

Ég undirstrika að af hálfu okkar sjálfstæðismanna í minni hluta menntamálanefndar erum við ekki að andmæla í sjálfu sér ýmsum af þeim breytingum sem verið er að leggja til. Við erum hins vegar að leggjast gegn þeirri óábyrgu stefnu við núverandi aðstæður að leggja fram tillögur sem fela í sér skuldbindingar til framtíðar litið á sama tíma og við glímum við stóran fjárlagahalla. Þetta er á vissan hátt fugl í skógi, getum við sagt, vegna þess að væntanlega þarf að afla heimilda í fjárlögum á hverju ári fyrir þessari upphæð og enginn veit á þessari stundu hvernig mönnum mun vegna í þeirri vinnu þegar við stöndum frammi fyrir erfiðleikum í fjárlagagerð.

Ég veit að hæstv. menntamálaráðherra þekkir vel til í því hvernig hún stendur frammi fyrir margs konar útgjaldavanda menntamálaráðuneytisins. Þó að einhvers staðar hafi fundist matarholur í því ráðuneyti sem ætlunin er að nota á þessu ári hefði mátt hugsa sér að nýta það með öðrum hætti. Það er hins vegar pólitísk stefnumótun sem ég út af fyrir sig ætla ekki að gera að umræðuefni. Ég er eingöngu að árétta að óábyrgt er að leggja fram frumvarp á sama tíma og vaxtastigið í landinu er á þriðja tug prósenta, og ætla sér að fjármagna þessi útgjöld með aukinni sókn inn á lánsfjármarkaði í landinu við mjög þröngar aðstæður.