136. löggjafarþing — 116. fundur,  25. mars 2009.

listamannalaun.

406. mál
[20:26]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Allt var rétt sem kom fram hjá hæstv. ráðherra um að við þurfum að forgangsraða. Það er nú þetta erfiða viðfangsefni okkar í stjórnmálunum að forgangsraða og það vefst æðioft fyrir okkur.

Ég held hins vegar hvað varðar tónlistar- og ráðstefnuhúsið að erfitt verði að axla það vegna þess hruns sem hefur orðið í tekjum ríkissjóðs og þess vegna þurfum við að sníða okkur stakk eftir vexti. Vegna þess að við höfum tekið ákvarðanir um útgjöld eins og rekstur tónlistar- og ráðstefnuhússins getum við ekki lagt á ráðin um að fara eins og ekkert sé í stórfelldar framkvæmdir eða útgjöld á öðrum sviðum. Við verðum að hafa kjark og kraft og þor til að takast á við breytingar í ríkisrekstrinum. Annars lendum við í vandræðum. Annars lendum við á skeri í okkar mikilvægu starfsemi á vettvangi ríkisins.

En ég minnist þess að þegar ég kom fyrst í þingið sem varamaður árið 1984 var verið að fjalla um Þjóðarbókhlöðuna, sem stóð ókláruð ansi lengi. (Gripið fram í: Tíu ár.) Það var fundin leið til að fjármagna hana og settur á sérstakur þjóðarbókhlöðuskattur sem Sverrir Hermannsson, þáverandi menntamálaráðherra, fann upp, (Gripið fram í.) ef ég fer rétt með. En sá skattur var hins vegar lagður á löngu eftir (Forseti hringir.) að búið var að byggja Þjóðarbókhlöðuna og varð að umræðuefni (Forseti hringir.) hér í þinginu sem ódrepandi skattur. (Gripið fram í.)