136. löggjafarþing — 116. fundur,  25. mars 2009.

listamannalaun.

406. mál
[20:38]
Horfa

menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir það áhugaverð söguskoðun hjá hv. þm. Pétri Blöndal að tala um að staðan sé nokkuð góð, staðan nokkuð góð ef við pössum okkur á því að eyða ekki í listamannalaun og tónlistarhús. (Gripið fram í.) Ég segi, hv. þingmaður, að eftir stjórnarsetu Sjálfstæðisflokksins í 18 ár tökum við við samfélagi sem er í rúst og þá er ég að tala um ótrúlega skuldsetningu í atvinnulífi og hjá heimilum. (Gripið fram í.) Ég bendi á að hv. þingmaður kemur hér upp og segir að staðan sé nokkuð góð en setur það í samhengi við umræðu um listamannalaun, að það sé jafnvel sú litla þúfa sem muni velta hlassinu. Ég verð að segja við hv. þingmann að við erum auðvitað í mjög alvarlegri stöðu og verðum að taka á því með ábyrgum hætti. En að setja það í þetta samhengi að staðan væri annars nokkuð góð ef ekki kæmi til bruðl í menningarmálum, þá verð ég að segja að þar erum við að horfa upp á atvinnusköpun, eins og ég fór yfir áðan, sem einmitt skapar af sér fleiri störf sem skiptir máli til að styrkja ímynd Íslands á alþjóðavettvangi, sem skiptir máli sem útflutningsvara þó að fólk vilji bara horfa á álið eða fiskinn sem eru auðvitað hinar hefðbundnu framleiðslugreinar og sjálfsagt að ræða. En við skulum líka velta því fyrir okkur að ætlum við að stóla á ferðamennsku, ætlum við að stóla á það að ímynd Íslands verði ólöskuð, þá held ég t.d. að íslensk menning muni skipta þar meira máli en hvalveiðar, hv. þingmaður.