136. löggjafarþing — 116. fundur,  25. mars 2009.

listamannalaun.

406. mál
[20:40]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt að Sjálfstæðisflokkurinn sat í 18 ár í ríkisstjórn á Íslandi. Ég er búinn að heyra þetta mörgum sinnum en það er ekki allsherjar-„alibí“ fyrir alls konar dellu sem núverandi ríkisstjórn er að gera. Hún getur ekki skotið sér á bak við það endalaust (Gripið fram í: Og gert hvað?) þegar verið er að fara út í listamannalaun, sem er ágætt og fínt ef það er ekki borgað með skuldum, en þetta er borgað með skuldum, það stendur í frumvarpinu. Menn eru því ekki að fara út í eitthvað sem þeir eiga fyrir. Á sama tíma er fólk að missa vinnuna og fara á atvinnuleysisbætur. Það fær atvinnuleysisbætur í þrjá mánuði, og hvað svo? Þá fer það á grunnatvinnuleysisbætur sem eru mjög lágar. Á sama tíma á að fara að dæla út peningum í — hvað á ég að segja? Ég hugsa að þetta minnki ekki atvinnuleysið neitt. Þetta fólk er starfandi hvort sem er. Ég sé það ekki þannig að þeir sem fara á listamannalaun — eru þeir á atvinnuleysisbótum í dag? Ég veit það ekki. Engin könnun hefur verið gerð á því.

Mér finnst þetta vera ábyrgðarhluti ásamt með mörgu öðru. Ég nefndi tónlistarhúsið sem er alveg óskaplegur baggi og ég nefndi heilbrigðisráðuneytið sem er að draga til baka allar sparnaðarráðstafanir. Það er eins og ekkert hafi gerst. Það er eins og menn sjái ekkert fram undan. Það er það sem ég er að gagnrýna. Við þurfum að viðurkenna vandann og þó að menn vilji gjarnan tala um ábyrgð hjá ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins þá er vandinn þarna samt sem áður. Hann getur hafa komið vegna Sjálfstæðisflokksins, hann getur hafa komið vegna þess að verðbréfamarkaðurinn í Wall Street hrundi eða eitthvað svoleiðis, ég get tekið líka ábyrgð á honum ef menn vilja, en vandinn er samt sem áður til að leysa. Ég sé ágætar lausnir til að leysa hann ef við sýnum ráðdeild og pössunarsemi alls staðar.