136. löggjafarþing — 116. fundur,  25. mars 2009.

Bjargráðasjóður.

413. mál
[21:24]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er athyglisvert að hlusta á einn af helstu leiðtogum Sjálfstæðisflokksins tala um félagshyggju og samhjálp og úthúða þeim hugtökum, hv. þm. Pétur Blöndal, sem ég held að hafi verið númer þrjú í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og verður að skoðast sem einn af andlegum leiðtogum flokksins. Það að heyra hv. þingmann tala svona niður til samtaka, sjóða og félagshyggjukrafta sem hafa í rauninni staðið að baki og stutt við uppbyggingu þjóðarinnar og atvinnuvega hennar á undanförnum árum, einn af leiðtogum þess flokks sem hefur með stefnu sinni leitt efnahagshrun yfir land og þjóð — (Gripið fram í: Voru það ekki 18 ár?) 18 ára samfelld stjórnartíð, jú — þar lýsti sér vel sú stefna í því hvernig talað var niður til samtryggingar og samhjálparkerfis eins og Bjargráðasjóður er.

Það var líka athyglisvert að heyra annan hv. þm. Sjálfstæðisflokksins, Sturlu Böðvarsson, mæla hér fyrir og taka upp varnir fyrir Bjargráðasjóð og hlutverk hans og það hvernig hann hefur reynt að verja sjóðinn fyrir frjálshyggjuöflunum í sínum eigin flokki og vafalaust undir forustu hv. þm. Péturs Blöndals, eins af bæði fyrrverandi og framtíðarleiðtogum Sjálfstæðisflokksins samanber nýafstaðið prófkjör.

Ég held að það sé þokkalega góð lexía fyrir þjóðina að hlusta á hv. þm. Pétur Blöndal, einn af leiðtogum Sjálfstæðisflokksins, tala niður til félagshyggjunnar. (Forseti hringir.) Ég vil spyrja hv. þingmann: Er það með þessum hætti (Forseti hringir.) sem á að endurreisa Ísland í nafni Sjálfstæðisflokksins?