136. löggjafarþing — 116. fundur,  25. mars 2009.

Bjargráðasjóður.

413. mál
[21:28]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Heldur reyndi hv. þingmaður að draga í land núna og viðurkenna að félagshyggja gæti átt rétt á sér. Það var gott að heyra. Ég minni á að þetta er einn af leiðtogum Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Pétur Blöndal, sem stóð fyrir og leiddi einkavæðingu og græðgisvæðingu bankanna, helmingaskipti á eigum þjóðarinnar í bönkum landsins sem var aðdragandi að því sem við nú upplifum í efnahagshruninu. Mér vitanlega hafa forustumenn Sjálfstæðisflokksins ekki beðist afsökunar á þeirri einkavæðingu og græðgisvæðingu sem þeir leiddu þar yfir.

Hins vegar er hægt að koma upp í ræðustól hv. Alþingis og fjargviðrast yfir samtryggingu og félagshyggju sem er grunnurinn að stofnun Bjargráðasjóðs og sá sjóður hefur oft komið þjóðinni og íbúum hennar, sérstaklega hinum dreifðu byggðum vel. Það má vel vera að í græðgisvæðingu og einkavæðingu undanfarinna ára hafi staða Bjargráðasjóðs aðeins færst til hliðar. Við erum núna að færa okkur aftur til hinnar gömlu og góðu félagslegu gilda og Bjargráðasjóður er einn hluti af þeim.

Það er mjög athyglisvert fyrir þjóðina að heyra einn af leiðtogum Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Pétur Blöndal, sem var númer þrjú í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík (Gripið fram í: Hver var númer sjö?) tala niður til félagshyggju og samhjálpar meðal þjóðarinnar. Ég vek athygli á því að einkavæðing og frjálshyggjustefna Sjálfstæðisflokksins undir forustu hv. þm. Péturs Blöndals hefur leitt okkur í ógöngur. Hv. þingmaður (Forseti hringir.) ætti að biðjast afsökunar á hlut sínum í því. (Gripið fram í.)